blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: júní 2010

miðvikudagur, júní 30, 2010

Lögguhasar

Síðastliðna nótt vakti löggan mig með því að berja að dyrum og sagði við mig, manninn sem var búinn að sofa seinustu tvo klukkutímana að hringt hefði verið og kvartað út af hávaða úr íbúðinni(sem ég lá sofandi í). Þetta var eitthvað brambolt og eins og verið væri að ganga í skrokk á einhverjum og svo öskur. Einn lögreglumaðurinn talaði eitthvað um setningar eins og "Ég skal drepa þig". Ég stóð nú þarna á brókinni fyrir framan þá og klóraði mér í hausnum. En ég varð nú ekkert var við nein læti heima hjá mér en það var að vísu talað um læti þegar ég fór að spæja málið daginn eftir en þau voru ekki í minni íbúð. Annars er ég nú ekki vanur að vera með slíkan djöfulgang heima hjá mér eða þá að ráðast á heimilisfólk í mínum húsum. Annars eru nú sittlítið af furðufuglum í þessari blokk. Kerling sem talar aldrei og tekur ekki undir kurteisiskveðjur á borð við "góðan daginn" Eitt sinn bauð ég góðan daginn en hún herti bara á göngunni og strunsaði með innkaupapokana sína inn til sín. Svo er kjafta kerling í húsinu sem er með augun í hnakkanum og á snípnum og veit allt um alla og veit líka flest um alla í næstu blokk. Svo er það geðveika kerlingin. Hún sér pöddur og skordýr út um allt og er hin dólgslegasta með að leggja kjaftakerlinguna í einelti. Inná þessu liði hangir oft eitthvað misgáfulegt lið sem er víst til að vera með barsmíðar og líkamsárásir. Kannski kom þessi hávaði frá annarri íbúð hérna í húsinu og einhverjum stútað sem finnst þá ekki fyrr en ég fer að finna nálikt og hringi á lögregluna. Það gæti alveg verið. Þá get ég kannski skammað löggukallana sem komu til mín og vöktu mig um hánótt með því að ramba ekki á rétta íbúð.

mánudagur, júní 28, 2010

Demo og take one

Það er nú meiri fjársjóðurinn þegar maður dettur niður á kasettu fulla af 13 ára gömlum rugliupptökum sem ég og Finnur tókum upp í ölæði, enda við báðir virkir og bullandi alkar í þá daga. Eitthvað tengist þetta ástarsorgum okkar beggja. Kærastan ný búin að dömpa kallinum og ég í tjóni eftir að hafa verið hafnað af stelpuskjátu sem ég var skotinn í og allt í veseni. En þá settumst við niður með gítar og hljómborð og útkoman varð þessi og textarnir eru ekki við hæfi barna. Ég held að á seinna laginu séum við eitthvað að reyna að apa eftir The Beatles þeð með því að setja trommuendi við lagið eins og þeir gerðu með Strawberry Fields Forever. Ég veit það svo í sjálfu sér ekki afhverju við kölluðum lagið sem ég póstaði hér að neðan "Hið fallega og hið ljóta" frekar en "Hosuþjapparinn". Ég kýs að nefna það hosuþjapparann. Ég þakka svo doktornum kærlega fyrir tæknilega aðstoð við að koma þessu af kasettunni yfir á tölvutækt form.

Stonekey & Spritti - Hosuþjapparinn(demo)


Stonekey & Spritti - Hosuþjapparinn(take1)

miðvikudagur, júní 23, 2010

Mín saga er dásamleg

Úrslit voru gerð kunn í glæpasmásögukeppni Mannlífs og Hins Íslenska glæpafélags í dag, sagan mín sökkaði og saug feitan að mati dómnefndar og komst ekki einu sinni í blaðið, enda gengur snillingum alltaf illa þegar þeir byrja í bransanum. En hér að neðan getur þú lesið söguna sem ber heitið Hallgrímur:

Hallgrímur

Hún stóð við Hallgrímskirkju og horfði upp eftir kirkjuturninum og á þungskýjaðan himininn. Freydís sá á útliti skýjanna að þessi dagur yrði ábyggilega jafn ömurlegur og síðustu dagar, vikur og mánuðir. Foreldrarnir báðir upp á spítala með litlabróður og hún sjálf á vergangi.
Litlibróðir Freydísar hafði veikst skömmu eftir fæðingu og til stóð að hann færi í aðgerð erlendis en nú var komin kreppa og búið að skrúfa fyrir allar fjárveitingar í læknisaðgerðir til útlanda. Slíkt þurfti fólk orðið að greiða úr eigin vösum og foreldrar Freydísar ekki efnaðasta fólkið í bænum. Foreldrarnir stóðu uppi atvinnulaus með alvarlega veikt barn í höndunum og að auki í einbýlishúsi sem nánast var komið undir hamarinn. Þá voru náttúrulega ekki til peningar til að fara með fárveikt barnið í aðgerð erlendis. Aðgerð þar sem fólk kom nánast undantekningarlaust fullbata heim aftur. Freydís bölvaði í hljóði. “Bara að ég gæti nú útvegað peninga fyrir meðferðinni”, hugsaði Freydís og saug hor upp í nefið. Hún og skálmaði með blauta hárlokkana í átt að dyrum Hallgrímskirkju, framhjá fína svarta fornbílnum sem skreyttur var hvítum borðum og fallegum slaufum. Freydís hugsaði með sér að kannski ætti hún að biðja til guðs. Setjast einhverstaðar niður inni á kirkjubekk og biðja guð um hjálp. Vona að guð myndi lækna litlabróður eða gera bara eitthvert kraftaverk. Fjárhagslegt happ svo að bróðir hennar kæmist til útlanda í læknismeðferðina. “Aumingja litlibróðir”, hugsaði Freydís og fékk tárin í augun. Þau runnu niður kinnarnar í bland við regndropana. Hún labbaði upp kirkjutröppurnar og kom í anddyri kirkjunnar og inn að lokuðum dyrum inn í sjálfan kirkjusalinn. Freydís opnaði dyrnar og ætlaði að labba inn í þegar kirkjuvörðurinn sem stóð þar nærri kom askvaðandi að vísaði henni burt.
- Snáfaðu stelpa, hvæsti vörðurinn. Það er verið að gifta fólk hérna.
Freydís snérist á hæli og gekk í burtu.
- Æi bansetta giftingapakk, tautaði hún. Snobbhænsn.
Hana langaði svo til að biðja í kirkjunni. Biðja til guðs. Kannski ætti hún líka að biðja til Hallgríms Péturssonar. Hún var nú á annað borð stödd í kirkju sem nefnd var eftir honum. Freydís kom auga á afgreiðsluborð sem seldi ferðamönnum miða upp í Hallgrímskirkjuturninn en þar var enginn maður og alveg við útidyrnar stóð passamyndasjálfsali. “Best að ég fari þarna inn og biðji til guðs”, hugsaði Freydís.
Hún settist inn í sjálfsalann og dró tjöldin fyrir. Hún vissi ekki hvernig hún ætti að byrja, hvort hún ætti að byrja á að tala til guðs eða Hallgríms eða fara bara fyrst með bæn til að byrja með. Ósjálfrátt spennti hún þó greipar og byrjaði:

Faðir vor og Hallgrímur Pétursson,
Þið sem eruð á himnum.
Helgist ykkar nöfn.
Til komi ykkar ríki.
Verði ykkar vilji svo á jörðu sem á him.....

Allt í einu stoppaði Freydís bænina þegar hún heyrði einhvern koma hlaupandi inn í anddyri kirkjunnar. Síðan var rekin hendi í einhverju snarhasti inn fyrir tjöld sjálfsalans og lítil skjalataska var látinn detta til fóta hennar. Krumlan hvarf svo jafn skjótt og hún kom. Freydís rak höfuðið út um sjálfsalan, forvitin yfir þessum látum og sá á eftir manni í frakka og með hatt hlaupa inn í kirkjuna og í átt að brúðhjónunum. Þar á eftir kom annar maður í fjólubláum flauelsjakka á harðaspretti. Hún leit niður á töskuna. “Hvaða taska er nú þetta”, hugsaði hún með sér.
-----------
Haustregnið var eins og hellt væri úr fötu. Svona úrhelli hafði ekki orðið mánuðum saman. Rannsóknarlögreglumennirnir Jón gamli Þorsteinsson og ungur félagi hans Helgi, sátu í rólegheitum í gamla Volvóinum hans Jóns og vöktuðu húsið af yfirvegun.
- Djöfulsins rugl, sagði Helgi. Þú veist að við eigum ekki að gera svona rannsóknir upp á eigin spýtur.
- Rólegur strákur, sagði sá gamli. Við erum bara rétt að sjá hvernig landið liggur. Helgi bölvaði í hljóði. Hann dauðsá eftir því að hafa ekki farið strax með málið til fíkniefnalögreglunnar. Frekar hafði hann farið með málið til gamla sérvitringsins sem fór þá að ráðskast með þetta.
- Ég átti allavega frí í dag, sagði Helgi. Alveg þangað til að þú komst heim og reifst mig upp á rassgatinu í þetta stakeout.
Helgi hafði af tilviljun heyrt til tveggja manna inná klósettinu á Hlemmi. Þeir höfðu verið að skiptast á peningum og fíkniefnum. Helgi hafði svo veitt öðrum þeirra eftirför og séð hann labba inn í hús við Þingholtsstræti. Og núna voru þeir þarna fyrir utan bárujárnhúsið, og ekki einu sinni á vakt.
Helgi sem var að drepast úr hungri og tók upp heimatilbúinn matarbakka sem hann geymdi í plastpoka. Hann fór að troða í sig óupphitað hakk og spagettí þarna í bílnum. Jón horfði á Helga án þess að blikka auga. ”Djöfull étur hann ógeðslega”,hugsaði hann með sér.
- Hvað ertu að éta nestið þitt í bílnum mínum, tuðaði Jón.
Helgi svaraði ekki, enda að troða í sig.
- Er þetta gott?
- Nei.
Aðeins hungrið fékk Helga til að hakka matinn í sig. Hann hafði ekkert étið þennan dag vegna sterkrar þynnku. Honum var enn hálf illt og langaði helst til að æla öllu aftur þegar hann var búinn með matinn. Helvítis þynnkan var að gera hann vitlausan enda hafði Helgi hellt sig vel fullan kvöldið áður og vaknað þennan dag við hliðina á konu sem hann þekkti ekki og í húsi sem hann vissi ekki hvar var. Það hefði þess vegna getað verið á Egilstöðum, svo óminnugur var Helgi á atburði næturinnar. Helgi hafði svo farið heim og verið tiltölulega nýlagstur útaf og sofnaður þegar Jón gamli bankaði uppá og fékk hann til að fara með sér út.
Og áfram héldu þeir innan um haustlaufin og helliregnið að vakta húsið.

- Helvítis djöfulsins djöfull sagði Óli um þegar hann gægðist út um kjallaragluggann.
- Er andskotans Volvóinn ennþá í götunni, spurði Brynjar.
- Já helvítis fíflin vita af okkur hérna.
- Ertu viss um að strákurinn sem þú sást í sé í löggunni.
- Hundrað prósent á því. Ég sá hann svo greinilega þegar ég var á leiðinni hingað áðan. Ég labbaði framhjá þessum Volvó. Gamli kallinn er líka í löggunni.
- Fjandakornið, sagði Brynjar og strauk sér í framan.
Hann horfði niður á líkið af gamla manninum sem hann hafði drepið um morguninn.
- Já og helvítis fljótfærnin í þér alltaf, hvæsti Óli. Þetta var kannski fullmikið að kála kallinum
- Hann ætlaði að stinga af til útlanda með kerlingunni sinni með alla peningana sem við létum hann geyma. Ekki mikið vit í því að missa tugi milljóna einhvern andskotann út í heim.
Dálítið brölt heyrðist frá kústaskáp við vegginn þar sem Brynjar stóð í blóði gamla mannsins.
- Og kerlingin, sagði Óli. Ekki höfum við hana keflaða inn í skáp til eilífðarnóns.
- Það finnur hana einhver bráðum, sagði Brynjar og byrjaði að sparka og öskra við kompuhurðina.
- Hættu þessu helvítis brölti þarna kerlingatussa eða ég brýt af þér hausinn.
Óli stökk að félaga sínum og reif hann í hálsmálið.
- Hættu að öskra, hvæsti Óli. Það er verið að fylgjast með húsinu fáviti. Það sem við þurfum að gera er að finna undankomuleið. Við tveir og peningataskan þurfum að komast út og í bílinn sem er í næstu götu og þaðan upp á flugvöll.
- En kókið, sagði Brynjar og klóraði sér á höfðinu. Það er hálft kíló hérna ennþá og slatti af hassi líka.
- Til andskotans með það, sagði Óli. Förum til Brasilíu með peningana, njótum lífsins og látum ekki sjá okkur hérna framar. Aldrei.
Óli lagaði á sér dökka hárið sem náði niður á mitt bakið. Hann horfði á félaga sinn sem hafði blóðslettur í andlitinu og var í alblóðugri peysu. Steikarhnífurinn sem hann hafði rist gamla manninn upp með lá í blóðpollinum við líkið.
- Hvað eigum við að gera við’etta, spurði Brynjar og horfði á líkið af sjötugum manninum.
- Drullaðu þér bara í sturtu ég held að ég sé búinn ég hugsa upp áætlun, sagði Óli og virti fyrir sér kápu og frakka þeirra hjóna. Hann kom auga á staf og hatt gamlamannsins.

Helgi sat og dottaði í bílsætinu á meðan Jón sat og keðjureykti. Hann var að spá fyrir alvöru að hætta þessu bölvaða smókaríi. Enda búinn að reykja í meira en fjörutíu ár. Hann drap í og ætlaði að lækka smá í harmonikkutónlistinni sem hann var með í gangi en varð það á að snúa volume takkanum öfugt og botnaði hátalaranna í bílnum. Bílrúðurnar léku á reiðiskjálfi og Helgi hrökk upp organdi við það kominn að fá taugaáfall.
- Djöfulsins kallandskoti öskraði Helgi og reyndi í jafnmiklu fáti og Jón að lækka niður í tækinu.
- Fyrirgefðu, sagði Jón þegar hann var búinn að lækka tónlistina
Honum hafði einnig hafði brugðið dálítið við þessi mistök.
- Þú drepur mig.
Helgi fálmaði innan í fjólubláa flauelsjakkann sem hann var í og náði sér í sígarettu. Hann opnaði rifu á gluggann.
- Er ekkert að gerast, spurði Helgi.
- Þetta er allt voða rólegt, sagði Jón.
Helga varð flökurt við reykingarnar og henti sígarettunni út um gluggann.
- Ef ekkert gerist á innan við hálftíma þá er ég farinn heim og þú lætur fíknó vita af þessu. Ég stend ekki í þessu þar sem ég er á frívakt. Ég þarf að komast að fá mér afréttara.
- Gott og vel, sagði Jón. Við skulum bara renna af stað núna. Ég læt strákana hjá fíknó vita.
Jón kveikti á bílnum.
- Nei heyrðu, sagði Helgi og sperrti sig.
- Hvað ?
- Nei ekkert, sagði Helgi. Þetta eru bara gömul hjón sem eru að ganga þarna út úr húsinu.
Jón sem var búinn að setja bílinn í dirve og stóð á bremmsuni varð starsýnt á þessi gömlu hjón. Þetta var maður í frakka með hatt og staf og gömul kona í kápu með silkiklút á höfðinu. Hún hélt á veski og gamli maðurinn var með netta skjalatösku í hendinni.
- Þetta er heldur stór kerling, sagði Jón og renndi bílnum rólega af stað.
- Hvað meinarðu ?
- Ertu fattlaus drengur, tautaði Jón. Þetta er ekki gamalt fólk.
Helgi horfði á eftir þessu meinta gamlafólki labba eftir götunni. Þetta voru tveir menn í dulargerfi.
- Andskotans fífl, sagði Helgi.
Jón vissi ekki hvort Helgi væri að tala um sjálfan sig eða hjónin.
- Farðu á eftir þeim, sagði Jón. Ég hringi eftir aðstoð.
Helgi dæsti.
- Já, áfram strákur.
Helgi steig út í rigninguna og labbaði á eftir hjónakornunum. Maðurinn í kápunni leit aftur fyrir sig og hertu þau á göngunni þegar þeir vissu um Helga labbandi á eftir sér.
- Heyrið mig, kallaði Helgi.
Hjónin hertu enn á göngunni.
- Halló, kallaði Helgi.
Félagarnir litu báðir við en á augabragði stukku þeir hlaupandi í sitthvora áttina og með því sama stökk Helgi á eftir manninum í frakkanum upp Laugaveginn. Það var Helga til happs að þegar hlaupin bárust inn á Skólavörðustíg, þá var lögreglubíll var ferðinni um Laugarveginn og rétt kominn að horni Laugavegs og Skólavörðustígs. Helgi náði á hlaupunum að fanga athygli lögreglumananna með því að hoppa orga og blístra og benti á eftir manninum í frakkanum. Lögreglumaðurinn sem ók lögreglubílnum þekkti Helga og setti því blikkljósin á og beygði upp Skólavörðustíg á eftir þessum hlaupagörpum.
“Helvítis fífl”, rumdi Helgi á stökkinu yfir matarskilti sem frakkamaðurinn hafði velt um koll á eftir sér.
Hlaupin bárust upp götuna, alla leið upp að Hallgrímskirkju þar sem dólgurinn hljóp inn í kirkjuna en þar var verið að gifta ungt par.

Loksins var stóri dagurinn runninn upp. Þóranna var komin upp að altari, klædd í brúðarkjólinn. Maðurinn sem hún elskaði stóð gegnt henni og af lotningu heyrði hún ekki orð prestsins.
- ....vilt þú ganga að eiga Jón Guðmundsson sem eiginmann þar til dauðinn aðskilur ykkur.
Þóranna stóð og horfði á Jón eins og dáleidd.
- Halló, sagði presturinn.
Þóranna hrökk upp af ástardáleiðslunni.
- Ha... Já... ég vil það, sagði Þóranna.
Þá lýsi ég ykkur sem hjó ........
Skyndilega var hurðinni lokið upp og inn hljóp maður með hatt og í frakka. Á eftir honum kom á harða spretti maður klæddur í bláan flauelsjakka eins og hann hefði verið úti á lífinu. Þeir enduðu báðir við fætur brúðhjónanna uppi við altarið. Allir stóðu og upp og störðu á þessi ósköp þangað til að tveir fílefldir lögreglumenn komu askvaðandi inn á eftir þeim og virtust hafa meiri áhuga á að ná manninum í frakkanum heldur en þeim flauelsjakkanum. Þeir smelltu manninn í járn og létu hann standa upp.
- Fyrirgefið, sagði Helgi við altarið og lagaði flauelsjakkann. Við erum lögreglan og eltum þennan mann alla leið hingað. Ég vona að það hafi ekki truflað.....
Helga greip í skyndingu um magann. Hann hafði gleymt hversu þunnur hann var ennþá og magainnihaldið, hakk og spaghettí var orðið að bullandi kviku sem þurfti að brjótast úr strax eftir hlaupin. Brúðguminn og svaramaðurinn sem og allir gestir kirkjunnar urðu þess aðnjótandi að sjá brúðina og prestinn fá ljósbrúna æluna yfir sig. Helgi sem nú var búinn að æla út brúðina og prestinn. Fór allur í fát.
- Uh, sagði Helgi og þurrkaði munninn með erminni. Fyrirgefið.
Hann hraðaði sér út og tók upp farsímann. Hinir tveir fylgdu á eftir með þann frakkaklædda á milli sín.

Freydís seig út úr passamyndasjálfsalanum og horfði á eftir lögreglumönnunum tveim sem elt höfðu mennina inn í kirkjuna. “Hvað var um að vera”, hugsaði hún með sér. Hún helt á töskunni sem fleygt hafði verið til hennar inn í sjálfsalann. Lögreglumennirnir og maðurinn í flauelsjakkanum virtust vera að yfirbuga manninn með hattinn og frakkann. Hún fylgdist með lögreglunni færa manninn í handjárn reisa hann upp. Síðan sagði flauelsjakka maðurinn eitthvað við prestinn.
- Oj, sagði Freydís og gretti sig um leið og maðurinn í flauelsjakkanum ældi yfir prestinn og brúðina.
Hún stökk til baka og faldi sig aftur í passamyndasjálfsalanum þegar hún sá að lögreglumennirnir fóru að drösla manninum út. Maðurinn í flauelsjakkanum var talandi í farsímann þegar og nam staðar í anddyrinu rétt við sjálfsalann.
- ...Já við náðum helvítinu, sagði Helgi. Hvað segirðu, fór hitt fíflið inn á kaffihús og faldi sig inn á klósetti. Hvað segirðu? Taska? Full af peningum? Nú já er það tuttugu og fimm milljóna fíkniefnagróði? Hann hefur sett hana frá sér einhverstaðar. Hún hlýtur að finnast þessi taska.
Skyndilega kúgaðist Helgi.
- Ég hringi á eftir ég þarf að finna mér eitthvað klósett hérna.
Helgi skaust eins og stálfjöður inn á nærliggjandi salerni og það næsta sem Freydís vissi var að flauelsjakkamaðurinn var ælandi þar inni.
Hún leit á töskuna sem hún var með í höndunum. Hún heyrði manninn segja að einhver taska full af peningum. Full af fíkniefnagróða. Hún opnaði lásana sitthvoru megin framan á töskunni og leit ofaní hana. Það var satt Hún var sneisa full af fimmþúsundköllum. Nú skyldi svo illagert fé aldeilis fá að gera góða hluti fyrir lítinn veikan strák sem þurfti að komast til útlanda í læknisaðgerð. Freydís lokaði töskunni ofurhægt og gægðist svo varlega út um rifurnar og sá að búið var að loka inn í kirkjuna og maðurinn í flauelsjakkanum var ennþá ælandi inn á klósetti. Hún smeygði sér úr sjálfsalanum og gekk hröðum skrefum út og sá lögreglumennina tvo berjast á hæl og hnakka við að koma þeim frakkaklædda inn í lögreglubílinn sem vildi illa við una.
Og glöð og reif gekk Freydís heim til sín. Ánægð í hjarta sínu yfir að geta fært foreldrum sínum þetta mikla fé svo að litli bróðir hennar gæti nú fengið meina sinna bót í útlöndum. Hún þakkaði líka Guði fyrir bænheyrnina en síðast en ekki síst þakkaði hún líka Hallgrími Péturssyni.

Endir

sunnudagur, júní 20, 2010

Amma þín hvað?

Þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi pungbindi þunglyndi

föstudagur, júní 18, 2010

Peningar og plötur

Mér áskotnuðust þessir seðlar. Þetta var nammi peningurinn einu sinni í viku þegar maður var sirka sex ára, brúnn fimmtíukróna seðill með Guðbrandi Þorlákssyni(1541-1627). Helvíti hefur hann Guðbrandur náð að verða gamall. Svo er það græni hundraðkallinn með Árna heitnum Magnússyni en hann fæddist s.k.v. uppl. á seðlinum 1663 en svo dó hann árið 1730. En þegar ég varð eitthvað eldri, átta ára eða eitthvað eða þegar þeir hættu að prenta út þessa fínu brúnu seðla, þá var nammipeningurinn hækkaður upp í hundraðkallinn hverja viku. Svo þegar hundraðkallinum var breytt í klink, var löngu búið að leggja af vikulega nammipeninga til mín sökum aldurs og of hárra tekna af vinnuskóla og svo síðar Laugafisks. Gaman að eiga svona seðla.
--------------------------------
Ég var að kaupa mér plötuspilara. Það er góð fjárfesting og nú get ég rippað yfir á mp3 það sem ekki er fáanlegt af vínyl með öðrum hætti. Ég hlustaði mikið á plötur á tímum nammi peninganna. Þetta voru vínylplötur Gæja bróður. Ég var hrifinn af pönkinu og þeytti Rokk í Reykjavík af mikilli ástúð. Svo átti hann þessa plötu með Tappa Tíkarrass sem ég snéri undir nálinni af alúð. Ekki skemmdi það að trommari hljómsveitarinnar Guðmundur Gunnarsson sem nú trommar með Fræbbblunum flutti í sveitina heima. Vappaði ég oft í kringum hann þar sem hann var kokkur á hótelinu á Laugum. Það var fjör.

Tappi Tíkarrass - Get ekki Sofið

mánudagur, júní 14, 2010

Lofttæmi

Stundum langar mig ferlega að skrifa. Maður veit að handan við hornið er eitthvað magnað sem maður veit að maður getur spunnið upp og samið. Það eru kringumstæður, samtöl og atburðarrásir sem ég næ ekki að koma frá mér. Puttarnir neita að pikka á lyklaborðið heilinn neitar að drífa heilastöðvarnar. Allt er lamað og engar hugdettur koma í ljós. Viti þið hvað þetta er kallað. Það kallast lofttæmi. Það er ekkert á seyði og ekkert að gerast. Engin þungi. Ekkert flæði né hreyfing. Engar sveiflur, blæbrigði né breytingar. Og ef hlustað er grannt, heyrist hvorki tónn, hrynjandi nér taktsláttur. Bara..... alls ekkert. Þannig er líf mitt orðið. Lofttæmi.

laugardagur, júní 12, 2010

Kaffiandinn tekur völdin

Kaffiandinn sem Þórbergur Þórðarson talaði stundum um. Ég veit ekki havaða fyrirbæri það er. Sennilega einhver draugur sem drekkur kaffi í gegn um fólk eins og þessar sálir látinna alkóhólista drekka vín í gegn um fyllibyttur sem ennþá lifa á jörðinni. A.m.k. lét þessi kaffiandi mig drekka þrjá sterka kaffiskammta í morgun. Kannski er þetta sjálfur Þórbergur sem drekkur kaffið í gegn um mig. Ég veit allavega að það eru til draugar sem drekka brennivín í gegn um fólk og þeir voru nokkrir draugarnir sem fengu sér neðan í því í gegn um mig þegar ég var hvað virkastur í mínum alkóhólisma. Hvort það var Þórbergur sem þarna var á ferðinni veit ég ekki. Veit ekki til þess að hann hafi verið neitt sérstaklega blautur í lifanda lífi en hann drakk samt brennivín og hann bruggaði ásamt eiginkonu sinni áfengan drykk sem þau kölluðu Þorláksdropa. En ég hef nú ekki lesið um það að hann hafi verið alki. Og þó ég þekkti mannin aldrei. Getur vel verið.
---------------------------------
Þetta er ágætt lag. Hlustaðu á þetta segi ég.
X - Nausea
Vhaaaaa

Múhahahaha

föstudagur, júní 04, 2010

Hugdettur heilans

Mig dreymdi í nótt að ég væri í heimsókn hjá Björgvin Halldórs og fjölskyldu. Ég spjallaði töluvert við kallinn en þó meira við kellinguna hans og Svölu. Svo að loknu molakaffi fórum við Krummi á rúntinn.
Meira ruglið
---------------
Þetta er mynd sem ég fíla vel. Þetta er svona þjóðvegatryllir ef svo má að orði komast. Músíkin í þessari mynd er líka góð. Þeir nota country, blues og dálítið af svona slow rock í ræmuna.

fimmtudagur, júní 03, 2010

Ósjálfgjafa

Lítið verið að gera þessa dagana nema bara að tippalingast eitthvað í leti og leiðindum. Aðeins skroppið að veiða en þó mun minna en ég hefði ætlað. Jú ég fór í sund í fyrradag og kjaftaði frá mér allt vit í heitapottinum. Svo í sturtunni á leiðinni uppúr sá ég lókinn á einum borgarfulltrúa sem ég man aldrei nafnið á. Á þeirri stundu dó eitthvað innra með mér. Það er ekki sjálfgefið að sá typpi á borgarfulltrúa og sleppa heill frá því. Ég og vélstjórinn komumst reyndar að því í síðasta túr að það er ekkert sjálfgefið sama hversu sjálfsagt það lítur út fyrir að vera. Það eina sem er sjálfgefið er að við drepumst einn daginn, hvert og eitt. Og þó, er það ekki hreinasta andskotans tilviljun að það hafi kviknað líf hérna á þessum stóra bolta hvernig getur þá verið sjálfgefið að eitthvað deyi sem ekki hefur þau forréttindi að lifa. Nú svo í Kristnihaldi Undir Jökli talaði Laxness eitthvað um líf sem væri gengið svo langt að það gæti ekki dáið. Það væri nú ljóta vesenið að fæðast inn í svoleiðis líf.
Ég er kominn með hausverk af því að hugsa.
----------------------------
Geisladiskar og aftur geisladiskar. Ég fór og keypti mér slatta af geisladiskum í dag, innlenda og erlenda músík en ekki náð að rippa þá þar sem tölvan mín er með eintóma stæla og rífur bara kjaft. Þá verður ekkert mp3 póstað neitt af þeim diskum að þessu zinni. Það þýðir ekkert að grenja yfir því neitt þá er bara að pósta hérna einhverju öðru annarsstaðar frá. Það er þá Lynyrd Skynyrd. Góður diskur sem ér er fyrir löngu búinn að týna en rippaði sem betur fer á sínum tíma.
Lynyrd Skynyrd - I Aint The One


Lynyrd Skynyrd - Things Goin


Lynyrd Skynyrd - Mississippi Kid