Lítið verið að gera þessa dagana nema bara að tippalingast eitthvað í leti og leiðindum. Aðeins skroppið að veiða en þó mun minna en ég hefði ætlað. Jú ég fór í sund í fyrradag og kjaftaði frá mér allt vit í heitapottinum. Svo í sturtunni á leiðinni uppúr sá ég lókinn á einum borgarfulltrúa sem ég man aldrei nafnið á. Á þeirri stundu dó eitthvað innra með mér. Það er ekki sjálfgefið að sá typpi á borgarfulltrúa og sleppa heill frá því. Ég og vélstjórinn komumst reyndar að því í síðasta túr að það er ekkert sjálfgefið sama hversu sjálfsagt það lítur út fyrir að vera. Það eina sem er sjálfgefið er að við drepumst einn daginn, hvert og eitt. Og þó, er það ekki hreinasta andskotans tilviljun að það hafi kviknað líf hérna á þessum stóra bolta hvernig getur þá verið sjálfgefið að eitthvað deyi sem ekki hefur þau forréttindi að lifa. Nú svo í Kristnihaldi Undir Jökli talaði Laxness eitthvað um líf sem væri gengið svo langt að það gæti ekki dáið. Það væri nú ljóta vesenið að fæðast inn í svoleiðis líf.
Ég er kominn með hausverk af því að hugsa.
----------------------------

Engin ummæli:
Skrifa ummæli