blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

miðvikudagur, maí 23, 2007

Draugagangur

Maður tekur ekki veðrið þessa dagana án þess að fá sjokk. Þær eru allavega alveg á skjön við almanakið og gróðurhúsaáhrif. En allavega, þá fer nú sumarið að koma. Þá leggjast flestir draugar í dvala og sofa fram á haustið. Já helvítis draugarnir. Alltaf var maður jafn skít logandi hræddur við þá í den tíð.
Ég man alltaf að verstu stundir mínar hvað draugana snerti voru þegar ég var að labba heim til mín á kvöldin frá Laugaskóla. Til að byrja með þurfti maður að labba framhjá tjörninni og íþróttahúsinu. Hvorutveggja var stútfullt af skítugum árum. Allavega hafa draugasögurnar úr íþróttahúsinu sjaldan heillað mig. Þar myndi ég allavega ekki vilja vera einn um nótt. Svo er það brúin yfir ánna. Þar rétt hjá er eldgamall grafreitur sem enginn vissi um fyrr en farið var að hrófla þarna við jarðveginum til að leggja veg. Þar fundust nokkrar beinagrindur. Maður nokkur var eitt sinn á labbi þarna um og fann þar fótlegg af manni sem hann þá henti í ánna þegar hann var kominn á brúnna. Um nóttina dreymir manninn að til sín kemur karl og kvartar sáran undan því sem hann gerði við fótlegginn sinn. Nú sé honum alltaf skít kalt í löppini.
Þarna var ég alltaf skít hræddur um að rekast á afturgenginn karlinn ösla í ánni, leitandi að fótleggnum.
Svo var það ristarhliðið. Þar undir gat ekki annað verið en að byggi einhver skaðræðis meinvætt og myndi reyna að krækja í buxnaskálmarnar á mér um leið og ég labbaði yfir ristarhliðið. Mér var skapi næst að taka tilhlaup og stökkva yfir það. En ég var auðvitað alltaf svo hræddur að ég þorði ekki að hlaupa. En svo þegar komið var yfir ristarhliðið var þar gröfin sem símamennirnir grófu niður í þegar þeir voru að leggja nýja símalínu á bæina. Helvítis asnarnir tóku aldrei eftir neinum beinum þegar þeir voru að grafa þarna upp og niður. Það var ekki fyrr en sumarið eftir að við fundum mikið af beinum þarna. Þarna sá ég alltaf eftir því að hafa hirt beinin. Nú hlyti beina eigandinn að hefna sín all rækilega á mér fyrir stuldinn.
En svo kom draugalegasti kaflinn en það var lautin heim að bænum. Þar var ég hræddastur. Fékk alltaf verstu ónotin þar.
Einu sinni þegar ég var að labba þarna um þegar ég hrekk upp öskrandi við einhver helvítis læti og hoppa til, um minnst þrjá faðma með hjartað í rassgatinu. Þá sé ég þá hvar Símon lyggur í snjónum organdi á meðan hann baðar út öllum öngum. Dreng djöfullinn hafði séð mig koma og lagst í snjóinn og ég ekki tekið eftir honum, enda í þungum þönkum yfir draugapælingum. Hann svo byrjað að hamast og orga með fyrrgreindum afleiðingum. Mig langaði til að kirkja hann fyrir hrekkinn.
En þá eru enn ónefndar aðrar vættir sem mér stóð mikill stuggur af þegar ég var bara krakkaskítur og ný farinn að uppgötva helvítis draugana. Þá nefni ég ófetið hann Bibu og félaga hans Ka. Þeir biðu í ofæni norður undir húsveggnum heima og vonuðust eftir að ná í mig ef ég vogaði mér út fyrir hússins dyr eftir að kvölda tók. Eins biðu þeir líka undir glugganum á herberginu hans afa, vaktandi austurdyrnar á húsinu ef ég skyldi ætla að reyna að snúa á þá en það hefði ég aldrei þorað. Þeir voru samkvæmt minni ýmind afskræmdir og ógeðslegar verur ólíkar mönnum á allan hátt. Ruslakallinn var oft í slagtogi með þeim og hann var sama helvítis óhræsið og þeir.
Já verið aldrei seint á ferðinni. Myrkrið geymir oft verur á öðru tilverustigi en okkar og mest verur sem eru allt annað en guðsríkismatur.

Engin ummæli: