blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: ágúst 2014

miðvikudagur, ágúst 27, 2014

Ég er nú ekki beint duglegur við þetta. Ég held svei mér, þó svo að ég sé ekki í neinni neikvæðni uppá síðkastið að þetta verði mín síðasta bloggfærsla. Nei ég ætla að halda þessu við. Hvað á maður annars af sér að gera ef maður kemur niður í stofu eftir andvöku? Lítið annað að gera en að blogga. Það hefur lítið borið til tíðinda, maður grípur í leigubílaakstur þegar það býðst. Fínt að keyra út um allt og vera á flakki. Lendi oft í spjalli við ferðamenn. Svo virðist sem allir samlandar Luc Merenda virðast vera búnir að gleyma honum þegar ég spyr út í hann. Við þetta vinnur svo misjafn sauðurinn. Flestir þarna eru ákaflega fínir og vel gefnir menn og allt það en inn á milli eru fjandans viðrini og fæðingarhálfvitar, því verður ekki neitað. Maður lætur auðvitað fávitana í friði. Reyndar er ég lítið að blanda geði við annað fólk frekar en ég þarf svona almennt. Jújú farþegarnir eru oft misgáfulegt lið og misjafn andskoti sem maður lendir í hvað það varðar, sérstaklega í helgarharkinu. Full hjón rífast, menn eru krambúleraðir eftir slagsmál, menn rífa kjaft við mig, reyna að stinga af án þess að borga eða bjóða eitthvað annað en peninga fyrir farið. Og fyrir mig skapbráðan manninn þarf ég að passa mig á að verða ekki brjálaður við erfiða kúnna. Slíkt endar bara illa. Nóg um það.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Ég átti spjall við ágætan mann sem ég hitti niðri á flugvelli í gær. Búinn að þekkja hann lengi en ekki hitt hann í mörg ár. Einn af þeim sem er ekki á facebook (Þvílík forréttindi maður)og var því ekki búinn að frétta neitt af honum allan tímann. Alltaf gaman að hitta á slíka menn. Var kominn erlendisfrá, búinn að vera í jóganu í suður ameríku og hræra í kellingum í Japan. Hann sagði mér frá kastala sem hann gisti í, í ungverjalandi. Einhver greifi eða álíka leppalúði hafði byggt hann fyrir öldum síðan en núna búið að breyta í hótel.
Hann hafði nú ekkert sérstaklega verið neinn spíritisti eða verið að vasast í einhverju dulrænu eða yfirhöfuð trúað á slíkt en eftir veruna í þessum kastala var hann sannfærður um tilvist hinna framliðnu og sagðist aldrei ætla að fara þangað aftur.
Fyrst hélt hann að hótelstarfsfólkið væri að gera gys með krafsi í vegginn og banki á herbergis gluggan, sem þó var í umþaðbil sex metra hæð. En honum var þó öllum lokið þegar hann settist upp í beddanum og hætti í miðju geyspi þegar hann sá skóna sína svífa í lausu lofti fyrir framan nefið á sér.
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Svo er það uppáhalds lagið af bestu plötu í heimi. Get ekki sofið, með Tappa Tíkarrass af Plötuni Míranda. útgefið 1983.
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Svo heldur maður áfram að vinna í sjálfum sér. Gerði helling af því í sumar. EMDR var það heillin.