blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: september 2014

sunnudagur, september 14, 2014

Ég er kannski eitthvað geðveikur, en...


Ehhh... Hvert stefnir þetta allt, hugsaði ég með mér þegar ég var búinn að lesa blöðin og horfa á allar fréttirnar í gær. Heimur versnandi fer, jú það er alveg rétt. Fáránlega rétt alveg. Sjá bara hvernig heimskan og gæðgin er að fara með heimin. Hvað allt er að verða svo meira og meira rætið og heiftúðlegra eftir því sem á líður og það hvernig við förum með þennan hnött sem við búum á er alveg djöfullegt. Við pumpum olíuna innúr hnettinum og brennum hana þannig að eiturefnin gufa upp í himinhvolfin sem veldur því að sólargeislarnir bræða jöklana. Svo búum við til mikið plast, höggvum skógana og puðrum með geislavirknina alveghreint tvist og bast og á endanum fer allt á kaf og einhver kall sem heitir Nói verður að smíða Örk.

Hugsanlega er það blekking þegar fjallað er um ævintýri Nóa í biblíunni að það sé eitthvað sem hafi gerst alveg í eldgamladaga, því hugsanlega er þetta eitthvað sem er ekki búið að gerast en sé að fara að gerast mjög fljótlega. Eitthvað hefur verið talað um að vísindamenn hjá NASA telji að siðmenningin og bara þessi vestræni kúltúr verði búinn eftir kannske 80 ár eða eitthvað. Já hvað á maður að halda annað? Tekin voru sýni úr hafinu með reglulegu millibili alla leið frá Bermúndaeyjum, til Íslands og það fundust plastagnir í hverju einasta sýni. Við erum að fylla hér allt af plasti, rusli, geislavirkni og reyk og skít. Síðan bráðna jöklarnir og allt fer á kaf. Þökk sé auðmönnum, olíufurstum og öðrum heimskingjum. Og þá vil ég aaaaaaðeins vitna í biblíuna

Fyrsta Mósebók: Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.

Svo fóru þeir Guð og Nói á kjaftatörn yfir molakaffi og flatkökum.

Nói fann náð í augum Drottins. Hann var maður réttlátur og vandaður á sinni öld sem gekk með Guði. Og í kjaftagangnum við Nóa sagði Guð: Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau. Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni. Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan og jarí jarí jarí bla bla bla...

Jöklarnir bráðna jú, en þetta sem segir í mósebókinni set ég nú spurningamerki við:
Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf.

Ég held bara að vatnsmagnið á jörðinni bjóði ekki uppá þann möguleika, því miður. Trúlega kemur Ísland þokkalega útúr þessu landlægt því að fræðimenn segja að fargið sem losnar við það að grænlandsjökull einn bráðnar, verður sennilega til þess að ísland hækkar og því muni hækkunin á landinu vega upp á móti hækkun yfirborðs sjávar. Það er meira að segja möguleiki á að við munum græða aðeins meiri fjöru á þessari hækkun landsins, þrátt fyrir hækkun yfirborðs sjávar. Húrra fyrir því. En svo fer allt í vitleysuna við þetta jökla og vatns rugl og jörðin umpólast og Ísland verður við miðbaug og þá geta allir sett upp stráhatta, farið í hawaiskyrtur og spókað sig um með gin og tónik í annarri og London Docks í hinni. Meira húrra á það. Reyndar þá held ég að ef umpólunin gengur hratt fyrir sig, þá er víst að fáir munu lifa af þær veðrasviftingar sem slíku umstangi fylgir, sem umpólun er. En sá kemur dagur að þetta róast svo allt og þær fáu hræður sem lifa af allt ruglið munu byrja þetta nýja upphaf sem segir frá í mósebók. Trúlega væri það öll þessi vísindalega þekking og kunnátta á svo mörgum sviðum sem við höfum í dag, sem þau munu taka með sér úr flóðinu mikla og munu nýta sér til góðs en síðan skilja hitt draslið og óþarfann eftir, eins og kjarnorkunotkun, olíuvinnslu, hagkerfi og allt annað þaðan af verra og heimskulegra rugl sem við stundum í dag. Svo mun það taka jörðina árhundruði að hreinsa sig af öllu rusli og mengun sem við erum að eitra út frá okkur núna. Hugsið ykkur allt plastdraslið sem á eftir að fljóta upp og allt efnaógeðið úr öllu sem við notum sem á eftir að blandast við hafið þegar það kaffærir flest vestræn ríki. Sennilega myndi einhver snillingurinn finna upp tæknina til að hjálpa jörðinni að hreinsa sig hraðar, ég veit það ekki. En allt kæmi þetta sjálfsagt á endanum og úr yrðu mun betri lifnaðarhættir og siðmenning. Jæja ég nenni ekki að pæla í þessu meir. Þær bara koma svona hjá manni þessar pælingar þegar maður er að skíta.