blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

fimmtudagur, desember 31, 2015



...þá var það árið 2015



Jáhhh... árið 2015 byrjaði sem framhald af ömurlegri endingu á árinu 2014. Ég var að skilja, átti hvergi heima, átti varla höfði að halla neinsstaðar vann og vann á taxanum og átti þannig lagað heima í honum fram á vorið eða þegar ég leigði mér húsnæði á sveitabæ utan við borgina. Var í kvíða og stressi og almennri vanlíðan og pirringi allt vorið. Nú – Þá var komið að því að selja þetta raðhús sem við hjónin áttum og fengum við fínt tilboð sem við gengum að og allt gekk fínt þar til að kaupandinn fór að vera með bögg. Í rauninni  var það vegna galla sem sýndir voru við kynningu á eigninni og komu fram í samningi. En það átti að snuða af manni eitt stk. lokagreiðslu uppá nokkrar milljónir. Þessi dans gekk það langt að það þurfti að fá fagmannsekju sem talsmann fyrir okkur og var boðað til fundar við kaupandann (sem reyndar mætti ekki, heldur bara lögfræðingurinn hans) og fasteignasalinn sem að mínu mati tók upp málstað kaupandans en var ekki hlutlaus. En jæja þetta hafðist og lokagreiðslan gekk í gegn. Hólabergið var góður staður að búa á og allt það ef frá eru taldir tveir nágrannar sem... æi ég nenni ekki að eyða orðum í þau fífl.
Sumarið kom – fyrir tilviljun hitti ég elskuna mína sem ég bý með núna, Nikólínu. Þar sem helvítis homminn vildi mig ekki, svo að ég hafði farið að róa á ný mið og hitti hana. Guði sé lof. Eftir að hafa hitt hana í nokkurn tíma var ég nú eiginlega ekkert á þeim buxunum að fara í eitthvað smaband strax en fuck it, „ég byrja þá bara með henni“ sagði ég með við sjálfan mig og ég fann að þetta var það besta ákvörðun sem ég hafði tekið lengi. Homminn má skammast sín.
Nú jæja. Ég var alltaf að vinna á taxanum og var svona eitt og annað farið að lagast til. Reyndar fór bissnessinn þetta sumar ekki alveg eins og ég ætlaði mér en svo fór að ég fékk uppí hendurnar bílaleigu með tilheyrandi brasi og pati. Ég leigði þessa bíla út nokkuð snuðrulaust fyrir sig en auðvitað var slatti af biliríi og rugli að þurfa að láta fólk hafa eitthvað annað en það var búið að panta og allir hundfúlir og jarí jarí. Svo var þetta drasl í misjöfnu ástandi en var orðið allt í döðlum eftir sumarið því að það er hægt að segja það sama um fólk: ferða-fólk er fífl. En ég er búinn að selja þessar tíkur allar fyrir skít og kanil og kom svona nokkurnveginn út á núlli.
Og svo ákváðu foreldrar mínir loksins að gifta og gerðu það þann 24 júlí eftir að þau  byrjuðu saman þarna 1978 eða 9. Frestunaráratta í þessu fólki alltafhreint.
Ég fór norður tvisvar á árinu.  Ég hafði ekki komið í gömlu sveitina síðan að haustlagi 2010. Af vissum ástæðum var það prinsipp að fara þangað aldrei framar, en með því að vinna nú svolítið með reiðina og biturleikann út í fortíðina og æskuna , fór ég þangað til að finna meiri sátt. Aðalerindið var reyndar af illri nauðsin en fór til að fylgja vini minum á Akureyri  til grafar sem lést ekki nema 32ja ára gamall. Sigurður Axel ég sakna þín og hugsa mikið til þín.
Tók mér svo frí í sumar í tæpa viku með kærustunni og fórum við hringinn á benzanum stöldruðum við í Breiðdalsvík nokkra daga, alveg frábært það. Fórum svo áfram með austurlandinu á norðurlandið og chilluðum styttra en við vildum en fullkomin ferð hringin og skemmtileg ævintýri sem áttu sér stað á þessu ferðalagi.
Dauðsföll voru nokkur á árinu en þar eins og fyrr segir voru menn að fara full snemma yfir móðuna miklu. Þá fóru tveir gamlir skipsfélagar og aðeins of fljótt líka hvorugur orðnir neitt háaldraðir en það er víst yfirmaður okkar á himnum sem ræður þessu öllu og spyr hvorki kóng né prest hvenær menn eru teknir yfir í astralheima. Nú en svo fór einn og einn út af elli og er það nú bara eðlilegt.
Svo kom haustið ég barðist raunar enn við kvíðann en  með  því að liggja á bæn til míns æðri máttar, ekki bara einu sinni á dag heldur oft á dag er þetta nú að hafast. Það er góð tilfinning þegar maður byrjar að treysta guði og finna að það sé allt í lagi og að það verði allt í lagi hvernig svosem sem það fer. Ég skráði mig svo á leiklistarnámskeið og dúddaðist í því eitthvað og lék svo í skaupinu og tók líka þátt í einhverju spaugstofugiggi sem og reyndar fleiri hlutum fyrr á árinu.
Ég er búinn að kynnast böns af allskonar fólki svona á þessum seinnihelmingi ársins svo að mér virðist sem þetta ár hafi tekið góðan endi. Vona bara að þetta haldi áfram á þessu striki. Ég þakka líka þeim sem hjálpuðu mér eða nenntu að tala við mig þegar mér leið hvað verst. Þið vitið hver þið eruð. En þá segi ég gleðilegt ár á ykkur öll og megi allt þetta blabla á komandi ári verða ykkur enn meira blabla á nýju ári.
Sjónvarpsþættir ársins – Fargo
Benzínstöð ársins – Shellstöðin við Bústaðarveg
Leigubílastöð ársins – CityTaxi
Tuð ársins – Ég að tuða yfir því í blöðunum að verið sé að nota titil af minni bók „Afturgangan“ á þýddan krimma eftir Jo Nesbö.
Tónleikar ársins – Bob Margolin (Blueshátíð)
Falleinkun ársins – Fasteignasala Reykjavíkur
Fæðingarhálfviti ársins – Fæðingarhálfvitinn sem keypti af mér húsið.
Leigubíll ársins -  Merzedes Benz E220 station grár NV201
Rifrildi og snapp ársins – Jæja það þarf ekkert að nefna það. Menn fara bara að vera með leiðindi.
Bless

þriðjudagur, mars 10, 2015

Ó þingeyjarsveit

Hef ekki komið í gömlu sveitina síðan að haustlagi 2010. Af vissum ástæðum var það prinsipp að fara þangað aldrei framar, en með því að vinna nú svolítið með reiðina og biturleikann út í fortíðina og æskuna seinustu mánuðina, fór ég norður til að finna sátt viðákveðna hluti. Var af illri nauðsin staddur á Akureyri en þar sem við æskufélagarnir fundum þarna tímasmugu ákváðum við að renna austryfir.

The abandoned road


---------------------------------------
Gaman með sprungunni
--------------------------------------------
Hér var einu sinni fóðurgangur og mjókurhús
Búið að rífaða
-----------------------------------------
           Hér reykti maður í laumi      
 
---------------------------------
Á góðum stað - Tvö  eyðibýli í fjarska
--------------------------------
Napur vindur sem hvín
--------------------------------
Gamli herbergisglugginn minn
-------------------------------
Erum að reyna að finna út hver tók símaklefann og setti þennan djöfulsins stein í staðinn
-------------------------------------
Íköld mjólk í boði
----------------------------------
Langt síðan maður hætti að fá sér í staupinu

sunnudagur, september 14, 2014

Ég er kannski eitthvað geðveikur, en...


Ehhh... Hvert stefnir þetta allt, hugsaði ég með mér þegar ég var búinn að lesa blöðin og horfa á allar fréttirnar í gær. Heimur versnandi fer, jú það er alveg rétt. Fáránlega rétt alveg. Sjá bara hvernig heimskan og gæðgin er að fara með heimin. Hvað allt er að verða svo meira og meira rætið og heiftúðlegra eftir því sem á líður og það hvernig við förum með þennan hnött sem við búum á er alveg djöfullegt. Við pumpum olíuna innúr hnettinum og brennum hana þannig að eiturefnin gufa upp í himinhvolfin sem veldur því að sólargeislarnir bræða jöklana. Svo búum við til mikið plast, höggvum skógana og puðrum með geislavirknina alveghreint tvist og bast og á endanum fer allt á kaf og einhver kall sem heitir Nói verður að smíða Örk.

Hugsanlega er það blekking þegar fjallað er um ævintýri Nóa í biblíunni að það sé eitthvað sem hafi gerst alveg í eldgamladaga, því hugsanlega er þetta eitthvað sem er ekki búið að gerast en sé að fara að gerast mjög fljótlega. Eitthvað hefur verið talað um að vísindamenn hjá NASA telji að siðmenningin og bara þessi vestræni kúltúr verði búinn eftir kannske 80 ár eða eitthvað. Já hvað á maður að halda annað? Tekin voru sýni úr hafinu með reglulegu millibili alla leið frá Bermúndaeyjum, til Íslands og það fundust plastagnir í hverju einasta sýni. Við erum að fylla hér allt af plasti, rusli, geislavirkni og reyk og skít. Síðan bráðna jöklarnir og allt fer á kaf. Þökk sé auðmönnum, olíufurstum og öðrum heimskingjum. Og þá vil ég aaaaaaðeins vitna í biblíuna

Fyrsta Mósebók: Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.

Svo fóru þeir Guð og Nói á kjaftatörn yfir molakaffi og flatkökum.

Nói fann náð í augum Drottins. Hann var maður réttlátur og vandaður á sinni öld sem gekk með Guði. Og í kjaftagangnum við Nóa sagði Guð: Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau. Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni. Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan og jarí jarí jarí bla bla bla...

Jöklarnir bráðna jú, en þetta sem segir í mósebókinni set ég nú spurningamerki við:
Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf.

Ég held bara að vatnsmagnið á jörðinni bjóði ekki uppá þann möguleika, því miður. Trúlega kemur Ísland þokkalega útúr þessu landlægt því að fræðimenn segja að fargið sem losnar við það að grænlandsjökull einn bráðnar, verður sennilega til þess að ísland hækkar og því muni hækkunin á landinu vega upp á móti hækkun yfirborðs sjávar. Það er meira að segja möguleiki á að við munum græða aðeins meiri fjöru á þessari hækkun landsins, þrátt fyrir hækkun yfirborðs sjávar. Húrra fyrir því. En svo fer allt í vitleysuna við þetta jökla og vatns rugl og jörðin umpólast og Ísland verður við miðbaug og þá geta allir sett upp stráhatta, farið í hawaiskyrtur og spókað sig um með gin og tónik í annarri og London Docks í hinni. Meira húrra á það. Reyndar þá held ég að ef umpólunin gengur hratt fyrir sig, þá er víst að fáir munu lifa af þær veðrasviftingar sem slíku umstangi fylgir, sem umpólun er. En sá kemur dagur að þetta róast svo allt og þær fáu hræður sem lifa af allt ruglið munu byrja þetta nýja upphaf sem segir frá í mósebók. Trúlega væri það öll þessi vísindalega þekking og kunnátta á svo mörgum sviðum sem við höfum í dag, sem þau munu taka með sér úr flóðinu mikla og munu nýta sér til góðs en síðan skilja hitt draslið og óþarfann eftir, eins og kjarnorkunotkun, olíuvinnslu, hagkerfi og allt annað þaðan af verra og heimskulegra rugl sem við stundum í dag. Svo mun það taka jörðina árhundruði að hreinsa sig af öllu rusli og mengun sem við erum að eitra út frá okkur núna. Hugsið ykkur allt plastdraslið sem á eftir að fljóta upp og allt efnaógeðið úr öllu sem við notum sem á eftir að blandast við hafið þegar það kaffærir flest vestræn ríki. Sennilega myndi einhver snillingurinn finna upp tæknina til að hjálpa jörðinni að hreinsa sig hraðar, ég veit það ekki. En allt kæmi þetta sjálfsagt á endanum og úr yrðu mun betri lifnaðarhættir og siðmenning. Jæja ég nenni ekki að pæla í þessu meir. Þær bara koma svona hjá manni þessar pælingar þegar maður er að skíta.

miðvikudagur, ágúst 27, 2014

Ég er nú ekki beint duglegur við þetta. Ég held svei mér, þó svo að ég sé ekki í neinni neikvæðni uppá síðkastið að þetta verði mín síðasta bloggfærsla. Nei ég ætla að halda þessu við. Hvað á maður annars af sér að gera ef maður kemur niður í stofu eftir andvöku? Lítið annað að gera en að blogga. Það hefur lítið borið til tíðinda, maður grípur í leigubílaakstur þegar það býðst. Fínt að keyra út um allt og vera á flakki. Lendi oft í spjalli við ferðamenn. Svo virðist sem allir samlandar Luc Merenda virðast vera búnir að gleyma honum þegar ég spyr út í hann. Við þetta vinnur svo misjafn sauðurinn. Flestir þarna eru ákaflega fínir og vel gefnir menn og allt það en inn á milli eru fjandans viðrini og fæðingarhálfvitar, því verður ekki neitað. Maður lætur auðvitað fávitana í friði. Reyndar er ég lítið að blanda geði við annað fólk frekar en ég þarf svona almennt. Jújú farþegarnir eru oft misgáfulegt lið og misjafn andskoti sem maður lendir í hvað það varðar, sérstaklega í helgarharkinu. Full hjón rífast, menn eru krambúleraðir eftir slagsmál, menn rífa kjaft við mig, reyna að stinga af án þess að borga eða bjóða eitthvað annað en peninga fyrir farið. Og fyrir mig skapbráðan manninn þarf ég að passa mig á að verða ekki brjálaður við erfiða kúnna. Slíkt endar bara illa. Nóg um það.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Ég átti spjall við ágætan mann sem ég hitti niðri á flugvelli í gær. Búinn að þekkja hann lengi en ekki hitt hann í mörg ár. Einn af þeim sem er ekki á facebook (Þvílík forréttindi maður)og var því ekki búinn að frétta neitt af honum allan tímann. Alltaf gaman að hitta á slíka menn. Var kominn erlendisfrá, búinn að vera í jóganu í suður ameríku og hræra í kellingum í Japan. Hann sagði mér frá kastala sem hann gisti í, í ungverjalandi. Einhver greifi eða álíka leppalúði hafði byggt hann fyrir öldum síðan en núna búið að breyta í hótel.
Hann hafði nú ekkert sérstaklega verið neinn spíritisti eða verið að vasast í einhverju dulrænu eða yfirhöfuð trúað á slíkt en eftir veruna í þessum kastala var hann sannfærður um tilvist hinna framliðnu og sagðist aldrei ætla að fara þangað aftur.
Fyrst hélt hann að hótelstarfsfólkið væri að gera gys með krafsi í vegginn og banki á herbergis gluggan, sem þó var í umþaðbil sex metra hæð. En honum var þó öllum lokið þegar hann settist upp í beddanum og hætti í miðju geyspi þegar hann sá skóna sína svífa í lausu lofti fyrir framan nefið á sér.
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Svo er það uppáhalds lagið af bestu plötu í heimi. Get ekki sofið, með Tappa Tíkarrass af Plötuni Míranda. útgefið 1983.
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Svo heldur maður áfram að vinna í sjálfum sér. Gerði helling af því í sumar. EMDR var það heillin.

laugardagur, maí 24, 2014

Og þá var leigður sumarbústaður í Grímsnesinu, grillað og legið í heitum potti. Í bústaðnum hripaði ég saman smásögu um mann sem lítur um farinn veg þegar honum hefur verið sagt upp störfum í sirkus þar sem hann hafði starfað sem trúður í fimmtán ár. Segir frá því hvernig aðdragandi uppsagnar hans hófst frá fyrsta degi. Þetta var kryddað með framliðnu fólki og verum utan úr geiminum. Endaði sagan með því að gaurinn hengdi sig og geimverurnar stálu líkinu. Endaði svo líka eð því að ég deletaði sögunni enda tómt rugl og pointlaust með öllu. Mér flýgur reyndar í hug að skrifa stuttmyndahandrit byggða á þessari sögu. Hver veit?
------------------------------------------------------------

Svo var manni boðið á viðhafnarsýningu Vonarstrætis um daginn þar sem maður var þáttakandi í því dæmi. Var reyndar klipptur burt en það bíttar engu. Það er aðallega gaman að hafa tekið þátt í þessu verki og í raun viss heiður verð ég að segja. Það er líka góð regla sem ég hef haft sem aukaleikari, að gera ráð fyrir því að sjást ekki, þá þarf ekki að svekkja sig á því að hafa verið klipptur burt eða lent einhversstaðar þar sem enginn sér mann. Það er nú það.
---------------------------------------------------------------------------------
Svo þarf bara að halda áfram að halda sér í jákvæðni einn dag í einu, það gengur svona og svona. Maður lærir betur og betur að líta á það sem er bjartara og í betri farveg og vera svo ekki í sífellu að mála djöfulinn á vegginn alltafhreint. Margt er komið í lag sem áður var í ólagi og líka ýmislegt sem er á leiðinni að verða í lagi. Tilvistarkreppan er á enda, eða allt að því held ég. Sumarið er ekki endilega tíminn ég hef reyndar aldrei skilið þessar árstíðaskiptu skapsveiflur hjá fólki. Jæja en lífið er það stutt að það tekur því ekki að kála sér. PLEHHH....