blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: desember 2010

fimmtudagur, desember 30, 2010

Nú er það svart

Dagurinn er farinn að lengjast þó að við séum ekki farin að taka eftir því varanlega. Ágætt að vita af því samt. Þó er svosem ágætt að hafa myrkrið yfir sér. Ég reyni svo að halda í vonina um gleðilegt ár en ætli þetta verði ekki sama tuggan og vanalega þar til að ég geri mér vonir um það sama daginn fyrir næstu áramót. Þannig hefur það a.m.k. ævinlega verið alla mína hunds og kattartíð. En ég nenni ekki að velta mér uppúr þessu, þetta tifar allt saman. Ég ætla að halda áfram að lesa Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson. Þessar fyrstu 60 blaðsíður lofa nokkuð góðu og halda manni ágætlega við efnið. Það er svolítið dramaívaf í þessum krimma. Þetta er fínt. Ég held að ég fái mér rúgbrauð og síld til að éta á meðan ég les. Svolítið malt og laufabrauð með líka. Já vá ég var að muna ég á nóg af laufabrauði ennþá, vei. Svona er að vera duglegur að breiða út og skera í og steikja.

Notorious B.I.G. - Hypnotize

föstudagur, desember 24, 2010

Gleði



Þá segi ég bara gleðileg jól og þakka fyrir heimsóknirnar á þetta vitleysis blogg á árinu sem er að líða.

miðvikudagur, desember 22, 2010

Dúdadídadei

Það er fátt um að vera hérna hjá mér. Ég sá þennan vitleysis tunglmyrkva í gærmorgun. Ég gæti alveg eins farið út og horft á tunglið mað rafsuðuhjálm á hausnum, það er ábyggilega svipað, en jæja þetta er náttúruundur víst. Samkvæmt almanaki Þjóðvinafélagsins verður næsti tunglmyrkvi 15. júní næstkomandi en sést ekki á íslandi. Þar eftir verður annar tunglmyrkvi 10. desember en honum verður að mesti lokið þegar tunglið rís þann morguninn og því ekki nema smá slitur af skugga að sjá af þeim myrkvanum.
--------------------------------
Jasko þetta er nefnilega gamalt og gott og var gefið löngu út áður en ég var í pungnum á pabba mínum en eftir að ég kom þaðan þá hef ég hlustað mikið á þetta lag. Kynntist því reyndar ekki fyrr en ég var orðinn unglingur og farinn að drekka heldur ótæpilega. The Hollies eru á uppáhaldslistanum mínum enda helvíti góðir.

The Hollies - Air That I Breath

laugardagur, desember 18, 2010

fimmtudagur, desember 16, 2010

Helvítis sjónvörp

Ég er nú búinn að sitja og góna á tvo þætti af gamanmálum Frímanns Gunnarssonar þar sem fjallað er um Jón Gnarr og um Frank Kvam. Held að ég nenni ekki að horfa á hina þættina. Og þó, jú held að það gæti verið gaman því að maður veit lítið sem ekki neitt um aðra háðfugla í skandinavíu nema þá Frank Kvam. Þetta var líka ágætt skandinavagrínista lið sem kom að utan til að skemmta okkur í Háskólabíói þarna í haust. Ég sé til hvað ég nenni að glápa mikið. Annars horfi ég lítið á sjónvarp þessa dagana. Mér hefur alltaf þótt sjónvörp best þegar það er slökkt á þeim. Eins þoli ég ekki sjónvarp sem er í gangi og enginn er að horfa á það. Það er bara kveikt á því og kallinn í fréttunum talar við sófann og stofuborðið og málverkin og orgelið sem ekkert heyra. Djöfull get ég orðið brjálaður. Ég bara þoli þetta ekki. Ég góna frekar í bækur eða til fjalla eða þá til stjarnanna. Mér leiðist hreinlega að horfa á sjónvarpið.
-------------------------------------
Maðurinn hefur aldrei kunnað að rappa svo gaman sé að hlusta en auðvitað seldist allt sem hann gaf út og grandalausir aðdáendur hans punguðu út aurum til að kaupa annars ömurlegt rapp. Eins með að sjá manninn leika í bíómyndum. Nei takk, ekki þetta, nei nei. En hann reyndi þó. Það hefur aldrei verið inn að rappa um körfubolta. Fólk vill bara heyra rapp um bitch, shit, fuck, nigger, knife, gun, dope, dollars, feat, murd, asshole, whore, bullets og baseballbat. Basketball er víst ekkert að fitta in í þetta. Samt heiðarlegt af honum að reyna að koma einhverju heilbrigðu inn í heim rapptónlistar. En ég læt því flakka hér einn óskapnað með Shaquille O'neal svona til að sýna ykkur dæmi um þessi ömurlegheit.

Shaquille O'neal - No Hooks

þriðjudagur, desember 14, 2010

Það væri gaman

Hver vill ekki eiga Leirfinn ? Ég væri svo vel til í að fá að taka mót af leirhausnum úr Geirfinnsmálinu og hafa hann svo í stofunni heima hjá mér. Er það ekki fín bissneshugmynd að fá einkaleifi á hausinn og framleiða svo Leirfinn á færibandi og selja síðan í Kolaportinu. Ég myndi bera mig eftir því ef ég væri myndhöggvari. Saga á bak við þennan haus og allt og er svo bara kominn í stofuna mína. Það væri magnað. Annars væri ég líka til í að hafa myndastyttuna af Rúnari Júl. sem enginn vildi kaupa nema fyrir skít og kanil og hafa hana í stofunni hjá mér. Kannski útí garði með fallegu blómabeði í kring. Ætli myndhöggvarinn sitji ennþá uppi með gripinn?
Núna ætla ég að taka til í veiðidótinu og ganga frá því inn í geymslu. Hef ekki komið því í verk fyrr en núna. Að vísu setti ég stangirnar mínar inn í geymslu um daginn með trega og munu þær ekki verða teknar aftur fram fyrr en næsta vor.
----------------------------
Jólin eru á næsta leiti og því ekki annað að gera en að mp3ast eitthvað með jólalögin. Þetta er nú aldeilis skemmtilegt. Held það nú bara.

Trans-Siberian Orc Estra - Wizards In Winter

fimmtudagur, desember 09, 2010

Alkaseríur

Búinn að hengja upp jólaseríur í kvöld. Ég ætlaði nú aldrei að hafa mig í það. Verst að maður hefur sig sjaldnast í að taka þær niður fyrr en á vorin eða um mitt sumarið. Bóndi nokkur tók aldrei útiseríuna af þakskegginu hjá sér og skipti bara út ónítum perum þegar leið að jólum. Annars átti hann það til að hella sig fullan þarna heima hjá sér á bænum þar sem hann bjó einn og þurftu bændur og hjú á næstu bæjum í nágrenninu ekki annað en að rýna aðeins út um gluggan en þá var hann ævinlega búinn að setja útiseríuna í samband, sama hvaða mánuður var í gangi. Bara að ljósin voru kveikt var merki um það að karlinn var fullur að hella uppásig þarna heima hjá sér. Æi voðalega fannst manni það klént að vera fullur einn heima, þá sjaldan sem það þó gerðist sem betur fer. Það er hund leiðinlegt en þegar maður er alki spyr Bakkus ekki að því hvað manni finnst gaman að gera á filleríi. Maður hellir bara í sig.
--------------------------------------
Maður lumar stundum á einhverju drasli oní kassa. Ég fann "Best of 80's" Eitthvað alveg á bólakafi í einum kassa uppá lofti. Rippaði ég þennan disk að gamni mínu og pósta hér tveimur lögum af þeim diski hérna. Ágætt svona af því að ég fann þennan disk sem ég vissi ekki einu sinni að ég ætti.

Miquel Brown - So Many Men, So little Time


Sister Sledge - Everybody Dance

mánudagur, desember 06, 2010

Draumur um straum

Mig dreymir ýmislegt rugl um þessar mundir en þó er það ekkert sem situr í mér. Látnir sem ég þekkti hér áður en þeir yfirgáfu þennan heim hafa ekkert verið að koma til mín í draumaheimi eins og svo oft áður né hef ég ekki heldur verið að vakna um miðja nótt eftir drauma mína með ónot í sálinni. Samt, Fólkið mitt hefur verið að koma saman í draumaheimi og halda veislur eða bara öll stórfjölskyldan að hittast það er náttúrulega bara indælt.
Senn fer svo að líða að því að kökuheflið verði tekið fram og flattar verða út laufakökur sem síðan verða skornar út. Það fjandans laufabrauð sem maður fær út í búð tilbúið til laufaskurðar eða bara alveg tilbúið er auðvitað ekki hægt að kalla laufabrauð. Nei, það verður að vera með laufskorningi í kantana og hafa laufin uppábrett og svo steikt uppúr tólg en ekki uppúr þessari fjandans jurtafeiti. Þetta er ekki laufabrauð þetta helvíti. Ég er sennilega of þingeyskur fyrir þetta drasl enda alinn upp við það að éta heimagert og almennilegt laufabrauð.
Jæja, ég ætla svo að lesa bókina 19.nóvember sem ég keypti mér í gær. Vita hvað hann ætlar að leysa frá skjóðunni varðandi Geirfinnsmálið þessi rannsóknarlögreglumaður úr Keflavík. Held bara að hann sé að reyna að réttlæta klúðrið í bókinni þessi maður. En við skulum sjá.

--------------------------

Þetta er gott. Það er fjör í þessu.

Tom Jones & Tina Turner - Hot Legs

föstudagur, desember 03, 2010

Hvað er eiginlega í gangi hérna ?


Meiriandskotans sterkjan þessar Yum Yum núðlur. Baneitrað en helvíti gott. Ég kann vel við vel kryddaðan mat. Það þarf svolítið að venjast þessu. Ég var eitt sinn með tælendingum á sjó sem átu núðlur í hvert mál og stráðu chillí yfir þær eins og kanil á grjónagraut, hrærðu upp í því og settu svo meira. Þetta átu þeir svo með beztu lyst á meðan ég reyndi að éta það líka en það endaði allt með því að ég snéri mig frá borðinu í einum keng, hrópandi á kokkinn að færa mér mjólkurfernu. Mjólk virkar nefnilega best til að réna sviðann af piparnum. Öldin er önnur núna og ég háma í mig chilli og jalapenjo eins og að éta gulrætur. Voða gott alltsaman. Reyndar, í sambandi við Yum Yum, var mér sagt að ef maður færi inn á ákveðna staði í Bankok og bæði um Yum Yum þá fengju menn ákveðna þjónustu sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.
------------------------------
Þetta er eitt af mínum uppáhalds. Ég hef engin frekari orð um það meir.

Snake River Conspiracy - You And Your Friend