blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: 2012

laugardagur, desember 29, 2012

Gleðilega hina hliðina á kasettunni

En jæja Maður vaknar á morgnana og það birtir seint og þá bíður maður eftir því að það dimmir aftur. Svoleiðis er ég. Ég vil hafa myrkur. Já ég hlýt að vera vampíra eða eitthvað. Reyndar finnst mér blóð ógeðslegt á bragðið þó að mér finnist voða gott að éta súran blóðmör. Jújú en auðvitað fagnar maður rísandi sól. Sumrin eru yndisleg, sérstaklega þegar veiðistangirnar mínar eiga í hlut og gráðugir silungar. Stundum finnst mér samt að þeir mættu vera gráðugri. Árið fer svo að verða búið svona hvað úr hverju og er örugglega hægt að finna eitthvað sérstakt á þessu ári sem ekki er hægt að finna í gömlu árunum og verður ekki í þeim sem koma, ef einhver verða. Já, það er alltaf verið að spá heimsendi. Enívei, við hjónin eignuðumst okkar, þriðja barn, bókin mín Afturgangan var loksins gefin út og ég fór að leika í kvikmyndum. Það er svona það helsta sem átti sér stað á árinu plús eitthvað fleira smádrasl sem ég nenni ekki að telja upp hér. Fór að vinna í sjálfum mér á andlega sviðinu. Gekk mis vel og tilvistarkreppuskeiði mínu er ekki lokið og þarf helling að taka til í hausnum áður en náð verður í höfn. Maður skánar lítillega dag frá degi, staðnar kannski svo vikum skiptir og heldur svo áfram að lagast og uppgötva nýja hluti sem koma sjálfum mér í jafnvægi. En svo kemur nýtt ár og maður vonar að það verði frábærasta og bestastasta ár í heimi. Þetta verður auðvitað bara sama kasettan, vetur, vor, sumar, haust, vetur og svo er kasettunni snúið við. Lofa engu með nýja bók á árinu en reyni að stefna á það. Þ.a.e.a.s. ef bókaforlögin fara ekki að fávitast til þess að setja offramboð af titlum á markað eins og í ár, þvílík fífl. Svo verður kosið til alþingis og karpað endalaust um hlutina og öllu lofað upp í stútfullar ermar sem eiga eftir að rifna undan svikaloforðum. Þetta fer nú í vitleysu, ég er viss um það.

miðvikudagur, nóvember 07, 2012

Matreiðsluhornið

Ég er nú svosem enginn lystakokkur en get þó mallað mér í svanginn þegar þannig stendur á að ég þarf að gera það sjálfur. Þó var ég nú kokkur á sjó fáeina túra á Mörtunni, Grímsnesi og Sigurvon. Það gekk svosem ágætlega og enginn dó af þessu sem ég eldaði eða fékk illt í magann. Reyndar var þetta ósköp einhæft hjá mér, kjötsúpa, pylsuréttur, hakkibollur, fiskur í ofni, hafragrautur hamborgarar og kjöt í karrý. Já og ég bakaði líka kökur í tvö skipti. Það var allt í læ og kallarnir bara ánægðir. Þannig að maður kann nú sittlítið af hvurju. Það er nú það. En en ég var búinn að búa til myndband með þessum rétt áður og ákvað að gera annað vandaðara. Sjábara.

þriðjudagur, október 30, 2012

Glæpasagan væntanleg í búðarhillurnar

Þetta er nú farinn að vera mánaðalegur viðburður að senda frá sér færslu hingað á bloggið því að allt sem manni dettur í hug að þvaðra um safnast ekki lengur saman í eina stóra klausu heldur fer orðið jafnóðum á facebook eða gleymist bara eitthvað út í vindinn. Ég er að pirra mig á seinagangi prentsmiðjunnar útí löndum En þetta hefur tafist alveg gríðarlega að fá bókina í gegn um vélarnar hjá þeim svo að þeir geti farið að hakkast til þess að koma þeim hingað heim. Enívei, fljótlega uppúr mánaðarmótum og ég held niðrí mér andanum og bíð. Þetta fer að fara að bresta á. Nei nei það þyðir ekkert að leggjast í gólfið og grenja. sígandi lukka er víst best segja þeir. ----------------------------------------------------------------------------------- Svo eldaði ég matinn í kvöld og þið getið séð það allt á myndbandi. Spælt egg í brauði hefur lengi verið í uppáhaldi eða það var mikið étið af þessu heima hjá mér í sveitinni, enda eggin úr hænunum hans afa endurunnar matarleifar frá okkur á bænum og því ókeypis. Alltaf til nóg af eggjum, þau vantaði ekki.

fimmtudagur, september 27, 2012

Þetta er að gerast:

Bókin er farin í prentun í útlöndum. Hún átti að koma út 1.okt en það hefur breyst svo að skruddann kemur ekki í búðargluggana fyrr en uppúr miðjum mánuði. Ég er búinn að fara í mitt fyrsta blaðaviðtal og á eftir að fara í fleiri hér og þar. Ég fór út að labba með hundinn og hann skeit og ég nennti ekkert að tína hægðirnar upp eftir hann en þegar maður á hesti átti leið hjá og fór að skipa mér að tína upp eftir hundinn, þá bað ég hann sömu leiðis að tína upp taðið sem hesturinn hans hafði sjálfsagt skilið eftir einhversstaðar. Kallfíflið setti upp fílusvip og skeiðiaði í burtu á hestinum. -------------------------------------------------------------------------------------- Svo í nótt dreymdi mig að ég væri á ferðinni um bæinn, fór í ísbúð og beið í röð eftir afgreiðslu ásamt Shaquille O´Neal, Jóhannesi úr Kötlum, Walter White og nokkrum múnínálfum. Þórbergur og Laxness voru sestir með sinn ísinn hvorn og flettu í þjóviljanum en ég settist svo gegnt þeim og fór að fletta í Tímanum.
Þórbergur: Nei ekki ertu að skoða í þetta sorprit?
Ég: Já/nei fjandinn hafi það sagði ég og fleygði blaðinu aftur fyrir mig.
Afgreiðslumaðurinn tók blaðið upp og henti því í ruslið og Laxness hristi hausinn.

föstudagur, september 07, 2012

Gott ket

Þetta er uppáhaldið mitt þessa dagana. Drykkin þekkja flestir en þurrkaða nautakjötið er hreinasta lostæti og fæst þetta bara í Kosti. Ég mæli samt ekki með því að éta mikið af þessu í einu því að ég hámaði þetta í mig þegar ég smakkaði það í fyrsta sinn hjá mági mínum og svilkonu. Fékk í magann og varð illt í nokkra klukkutíma á eftir. Það er eins og að éta slatta af pólskum pylsum sem ég gerði einu sinn. Voða gott fyrst og á meðan maður étur það en svo allt í einu BÚMM. Ég fór flatur í gólfið og engdist þar. Reyndar á ég er erfitt með að stoppa þegar ég kemst í eitthvað gott. Minn helsti veikleiki er matur, sérstaklega bakkelsi. Veit fátt betra en gott bakkelsi og kaffi með. Svo um dagin var ég í heimsókn hjá vini og át þessa líka dýrindis smjörkremstertu með gulu kremi sem var fjórar hæðir og girnileg. Neibb ég felldi mig á græðginni og var hálf afvelta allan tímann í heimsókninni. ------------------------------------------------------------------------------------- Svo eru það draumarnir. Aðra eins andskotans skelfingu hef ég aldrei upplifað í draumi og þarna. Mig dreymdi að ég væri á labbinu hérna í Breiðholtinu og mætti stórum svertingja sem ég fór svo eitthvað að tala við en síðan fór hann að elta mig og aðrir vinir hans líka sem voru fílefldir menn. Ég ætla ekki að segja hvað þeir ætluðust fyrir en ég veit það og get fullyrt það að við þessar kringumstæður sem ég var í í draumnum myndi hver einasti gegnkynhneigði einstaklingur í heiminum taka til fótanna. Og ég var svo guðs lifandi feginn að vakna þegar þeir voru við það að ná mér, þar sem ég var búinn að hlaupa með þá á hælunum slefandi af frygð, onúr Hólunum og var staddur í Bökkunum kallandi á hjálp.

laugardagur, ágúst 25, 2012

Pönk og klám-jazz

Hér er svo demó sem við Finnur böggluðum saman og eins og heyrist spiluðum þetta á hundavaði og handahlaupum og á afturfótunum líka. Bassinn svolítið bjagaður hjá mér enda er ég ekki sérlega vanur bassaleikari. Það allavega var þannig að við sömdum smá kafla og „Við spilum þetta svona og svona, í þessari röð” og svo setti ég diktafóninn á rec og við byrjuðum að spila. Byrjunin minnir mig reyndar á eitthvað en ég kem því ekki fyrir mig. Síðan fer af stað kafli sem við félagarnir sömdum í ölæði sumarið 1997, minnir mig ný búnir að vinna í Laugafiski og sestir niður með bjór og hljóðfæri. Settum svo inn smá jazz-kafla sem er stolinn úr klámmynd sem við félagar nöppuðum af ónefndum einstaklingi þegar við vorum unglingar. Mig minnir meira að segja að sjálfur meistari Ron Jeremy hafi leikið í atriðinu sem jazz-lagið var í. En nóg um það. Hlustaðu bara ef þú nennir og hefur áhuga.

miðvikudagur, ágúst 22, 2012

Kónguló vísaðu mér á crystal meth

Upplagt finnst mér þar sem maður er að húka þetta í sumarbústað að fara í berjamó til að sækja mér svolítið út á skyrið. Nenni nú reyndar ekki að týna mér bláber í sultu. Jæja ef ég kemst þá í nógu feit ber og nógu mikið í einu. Þá máski að ég sjóði mér svolítinn slatta í nokkrar krukkur. Ég þarf hinsvegar að slíta upp rabbabarann sem ég var búin að fá leyfi fyrir að hirða og sjóða han niður í sultu. Mér datt í hug að verða mér út um slatta af súpuketi til að sjóða niður í kæfu. Góða uppskrift geymir Neftóbakskokkurinn sem hann mallaði í hausinn á okkur á bátnum sem ég var á í den tíð. Helvíti góð kæfa finnst mér. Já ég á eftir að malla kæfu. Hef lengi langað að prufa það. Andskotinn, að maður skuli ekki vera bóndi og geta grautað með allskonar gúmmilaði af heimaslátruðu. Ég myndi örugglega meika mér góða rúllupylsu og kæfu. Síðan myndi ég svíða hausa og lappir og leggja sviðaafurðirnar í súr. Svo ef ég væri með góðan kjallara, myndi ég brugga landa svona uppá aukatekjur að gera. Já bændur verða að hafa svartar aukatekjur eins og aðrir.
Ekki veit ég hvernig ég fengi tæki og áhöld til að búa til chrystal metaphine eins og Walt og Jessie og ekki er ég efnafræðingur þannig að ég myndi sennilega láta það eiga sig. En það má framleiða gras í góðu gróðurhúsi. Nei ég er að grínast. Fólk á ekki að vera í því að búa til eiturlyf oní krakkana okkar. Menn sem gera það fara líklega til helvítis. Vonandi!

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Ufo og blóm

Ég er að prufa að tjasla saman smásögu. Norðurland í nóvember árið 1996, leiðina milli Akureyrar og Lauga. Puttaferðalangur sem stelur bíl og er numinn á brott af geimverum, en skilað heim til sín klukkutímum eftir brottnám. Sjáum hvernig til tekst. Ég er ekki vanur þessu en það má breyta frá vananum, úr krimma yfir í geimverur. Þarf að sjá hvernig til tekst og þá set ég söguna hingað á bloggið. Já ég veit, þér finnst þetta algjör þvæla hjá mér og heldur að ég sé nú alveg orðin ruglaður. Já það er þá bara þitt vandamál þarna... --------------------------------------------------------------------------------------- Þá flæktist maður á Blómstrandi Daga í Hveragerði þar sem maður er nú á annaðborð í sumarbústað í Grímsnesinu. Sáum Stígvélaða köttin, misstum af töframanninum og Dr-Gunna og Heiðu. Miðdegisblundi mínum sem fór úr böndunum að kenna. Já ég veit, ég er fokking sjálfmiðað fífl. Og svo ókyrraðist yngri drengurinn eitthvað við þann stígvelaða þannig að við fórum á rúntinn um bæinn á mínum heitt elskaða Terranó sem kemst allt og bjargast úr öllu. Heilmargt að sjá og blómlegt mannlíf. Kíkti á Eden og gerði smá before/after-mynd. Leiðinlegt hvernig fór fyrir apanum.

miðvikudagur, júlí 25, 2012

Bambarabamm

Svo dreymdi mig í nótt að ég væri í slagtogi með vafasömu og misgáfulegu fólki í undirheimum Reykjavíkur og til stóð eitthvað glæpsamlegt að gera til að græða á. Ég vildi nú heldur draga mig út úr þessu en lét til leiðast að leggja fé í þetta brask sem ég vissi ekki alveg hvað var og hafði slæma tilfinningu fyrir því sem var í uppsiglingu og dró mig út úr þessu. Síðan var ég á labbi í þröngu porti þegar ég mæti rannsóknarlögreglumanni(leit út eins og Kurtwood Smith, sennilega leikinn af honum bara) sem veittist að mér og keyrði mig út í vegg og sagðist fylgjast með öllu. Ég sagði honum að ég væri ekkert að gera af mér og hann gæti því djöflast í þessu liði sem ég hafði verið að umgangast í stað þess að bögga mig. Síðan fór mig að dreyma ýmislegt óljóst bull og var þessi Kurtwood Smith-lögga allstaðar að bregða fyrir hvar sem ég var staddur í draumum mínum. Sat meira að segja á næsta borði við mig þar sem ég var staddur í giftingaveislu og var líka fyrir aftan mig í röð þar sem ég var í matvörubúð að bíða eftir afgreiðslu og svo mætti honum á bíl þar sem ég var að keyra um götur Breiðholts. Í lokin var ég svo kominn til að taka við þessum ólöglega gróða sem ég hafði lagt fé í til ávöxtunar(skil samt ekki, ég hafði dregið mig út úr þessu). Staddur á bílaplani við einhvert veitingahús í Keflavík. Sá ég bíl löggukarlsins álengdar og vissi því að helvítis kallinn var að fylgjast með mér og hinum. „Nei," sagði ég þegar otað var að mér tösku með peningum, „ekki þessa helvítis blóðpeninga." Svo fór ég inn á veitingastaðinn, gekk inn á klósettið og meig í klósettskálina en í því þegar ég klára er að renna upp buxnaklaufinni kemur Kurtwood Smith-löggan og ræðst á mig og erum við að slást góða stund þegar mér tekst að rota hann með því að berja hausnum á honum í vaskinn, fer út á bílaplanið og tek við peningunum fullur réttlætiskenndar þar sem ég hef fengið nóg af því að vera eltur af þessari löggu sem var að ásækja mig. Sennilega mun ég aldrei líta Kurtwood Smith sömu augum og ég hef gert þegar ég horfi á That’s 70s Show.

sunnudagur, júlí 08, 2012

Gróði og lýgi

Einu sinni fyrir mörgum árum þurfti ég að fara í innheimtudeildina hjá RÚV til þess að ljúga því að ég ætti ekkert sjónvarp, svona til þess að losna við það að borga afnotagjöldin. Þegar ég labbaði þar inn fann ég fimmþúsundkall á gólfinu og hirti hann auðvitað, laug því svo að ég ætti ekkert sjónvarp, komst upp með það og labbaði út þurfandi ekki að borga afnotagjöldin plús með fimmþúsundkall í vasanum. Gróðinn var því 200%. Ekki allir svo heppnir að labba þaðan út í svo miklum gróða.

föstudagur, júlí 06, 2012

Jarðarband

Og þá var nú stormað á Stokkseyri í vikunni með viðliti í draugasetrinu. Voðalega flott dæmi sem maður labbar þarna um og allt gert voðalega draugalegt og skemmtilegt. Og svo er maður látinn hlusta á iPod og gædaður þarna í gegn með draugasögum. Svo hafa þeir tekið upp á því að vera þarna með einhver krakkaskít klæddan upp eins og móra. Sá stekkur í veg fyrir mann svo að manni bregði ógeðslega. Já ég sagði það, bregða ógeðslega. Ég er nú reyndar svo jarðbundin að ég finn aldrei neitt eða sé né heyri nokkurn skapaðan hlut að handan, að undanskildum óróanum í svefnherberginu mínu sem fór að sveiflast á fullu þarna hangandi uppí loftinu án þess að nokkur kæmi þar við. Allir gluggar voru lokaðir svo að enginn möguleiki á vindsúg var að ræða í þessu tilfelli. Já og skuggi sem ég sá eitt sinn bregða fyrir, þar sem ég gat ekki komið fyrir mig neinni almennilegri skýringu. Já maður er svo jarðbundinn eitthvað, enda alinn upp í kring um afar jarðbundið fólk. Aldrei var talað um álfa eða huldufólk eða reimleika á mínum bæ. Foreldrarnir spýttu í allar áttir ef reynt var að fá þau til að spjalla um slíkt. Ég reyndi einu sinni að kreista eitthvað uppúr afa mínum um dulræna hluti. En það var eitthvað voðalega lítið sem hann nennti að ræða um svoleiðis. Eldri bróðir minn giftist inní fjölskyldu þar sem fólkið var mikið að velta fyrir sér lífinu eftir dauðann, fóru á miðilsfundi og svoleiðis en hann hló nú bara framan í fólkið þegar reynt var að telja honum trú um slíkt. Mér líkar svo sem ágætlega að vera ekki í neinni snertingu við andaheimana og fínt að vera ómóttækilegur gagnvart því. Hleypi því heldur ekki of nálægt mér. Ég vil að framliðnir haldi sér á sínum stað og við á okkar. En þetta fylgir fólki víst mis mikið. Kona nokkur sem ég þekki hefur upplifað ýmislegt. Hún hefur séð hluti á borð við bækur og hin og þessi búsáhöld fara af stað heima hjá sér. Einu sinni gerðist það að kaffikanna og bolli sem stóðu á eldhúsborðinu hennar, lyftust upp og svo hallaði kaffikannan fram og hellti kaffi í bollann. Vinur minn var eitt sinn heima hjá sér og var að lesa inn í stofu þegar útvarpið fer að lækka niður í sér af sjálfsdáðum. Nú hann stendur upp og hækkar aftur í tækinu en þegar hann er svo sestur aftur niður en þá lækkar í tækinu. Hann stendur upp og hækkar á nýjan leik og sest niður en þá endurtekur sagan sig. Þá verður honum nú bara að orði, „viltu ekki bara slökkva á þessu”. Það var eins og við manninn mælt. Það slokknaði bara á tækinu. Jæja þá held ég að best sé að fá sér göngutúr með hundinn og vita hvernig jarðaberja beðin mín hafa blómstrað í dag.

sunnudagur, júlí 01, 2012

Gamlir tímar og rugl

Alltaf skal maður vera spáandi i fortíðinni. Er undirmeðvitundin virkilega svona mörg gígabæt að eitthvað poppar upp í draumi, tengt einhverju sem maður hélt að maður væri búinn að gleyma fyrir löngu síðan birtist manni sem heilskær minning, eins og hún hafi gerst í gær eða, þessvegna bara rétt áðan? Ekki er þetta neitt merkilegt miðað við það þegar ég fékk raflostið úr lampanum uppá háalofti þegar ég var lítill eða þegar ég var rétt nærri því búinn að hengja mig í buxnabeltinu hennar mömmu. Helvítis fikt alltaf. Einu sinni var ég nærri því búinn að kveikja í skemmuni þegar ég ákvað að kveikja aðeins í sinunni fyrir utan hana. Eins gott að ég náði að slökkva eldinn og sem betur fer voru foreldrarnir í kaupstað þegar þetta skeði. Þá hefði ég nú aldeilis fengið fyrir ferðina. Svo af því að það var svo mikið drasl þarna fyrir utan þá tók ég bara drasl og setti yfir brunablettinn og faldi hann þannig. Þau vita sennilega ekki neitt um þetta í dag. Og sem betur fer kviknaði ekki í skemmuni. Gastæki og allskonar eldfimt drasl þar inni. Svo líka á gamlársdegi, þá kveikti ég nú bara lítið bál utan í húsinu heima hjá mér. Þykir mildi að fullorðið fólk kom þar að og slökkti bálið og í sinuni utan í húsinu áður en allt fór í bál og brand. Svo varð maður hissa þegar manni var sagt að maður væri klikkaður krakki. En nú er bara að snúa sér að einhverju að til að pæla í. Gera það sem þarf að gera. Lífið er flókið en engin geimvísindi samt.

fimmtudagur, júní 28, 2012

X-IÐ á Hannes Bjarnason

Ég kynntist Hannesi Bjarnasyni þegar hann kom í mína heima sveit, til náms við Framhaldsskólann á Laugum. Ég var því tæplega 10ára þegar hann gekk í árgang með stóra bróður mínum. Þar var hann að komast af unglingsárum, á leið yfir á fullorðinsár enda nokkru eldri en bekkjafélagarnir. Þar sem hann var á íþróttabraut, var hann settur í æfingakennslu í íþróttahúsinu og kenndi hann mér íþróttir, part úr vetri. Og í gegnum samgang hans við bróður minn hafði ég af honum ágæt kynni og einnig þegar maður var að kíkja með aur í skólasjoppuna á kvöldin átti ég það til að líta við hjá honum uppá herbergi og spjalla við hann. Konan mín kyntist einnig Hannesi þegar hún var send í sveit til foreldra hans, norður í Skagafjörð á bæinn Eyhildarholt. Ber hún honum mjög góða söguna, enda er Hannes barngóður mjög og lék sér ætíð við krakkana sem þar voru höfð í sveit. Ég get svosem sagt, að ég á marga vini, kunningja og ættingja sem bera upp ýmislegt við mig og get líka sagt að fæsta þeirra myndi ég styðja til framboðs forseta Íslands. Ég kem hreint fram og segi nei ef mér finnst að viðkomandi ætti að sleppa því en segi já ef mér finnst viðkomandi ætti að láta slag standa. Ég hef líka hugsað út í það ef hinn og þessi kæmi til mín og segðist ætla að hefja slíka kosningabaráttu og hvað ég hefði sagt. Og þegar ég heyrði fyrst af framboði Hannesar, þá var það eitthvað svo stórt og mikið já. Ég tel að hann hafi allt til brunns að bera þegar kemur að slíku verkefni sem er svo stórt í eðli sínu. Ég er ekki að styðja hann bara af því að ég þekki hann og hann er svo mikill vinur. Stuðningur minn er ekki einhver meðvirkni. Ég bara trúi því statt og stöðugt að hann sé maðurinn í þetta. Hann er bara einmitt sá rétti. --------------------------------------------------------------------------------------- Þessi mynd af Hannesi er tekin þegar við þegar hjónin vorum stödd í heimsókn á heimili foreldra hans í Skagafirði, sumarið 2010.

sunnudagur, júní 24, 2012

Lestur draumar og gremja

Er búinn að vera mikið að lesa allan andskotann. Allt frá þjóðsögum uppí glæpasögur. Var að klára farþegann eftir Árna Þórarins og Pál K Pálsson og er með því betra sem Árni Þórarins hefur komið nærri. Íslenskur aðall eftir Þórberg stendur uppí hillu hjá mér. Ekki ósennilegt að ég fari að glugga í hana núna. ----------------------------------------------------------------------------------- Annars hafa draumarnir verið í miklum gæðum uppá síðkastið og mig verið að dreyma allskonar hluti. Svo skrítið að mann dreymir oft eitthvað sem er svo fjarstæðukennt og fólk sem maður hefur kannski bara séð... Já mig dreymdi einu sinni man sem ég hef bara séð við Hlemm þegar ég hef verið á ferðinni til og frá vinnu og aldrei pælt neitt í þessum manni. En svo dúkkar hann upp í draumi. Og svo bara eitthvað bulldraumur. Skrítið. ----------------------------------------------------------------------------------- Hef verið að taka 12sporaprógrammið til skoðunar. Farið á fundina reglulega sem verður svo fastur liður í mínu lífi framvegins. Er búinn að vera of lengi án fundanna eða í nokkur ár. Er að vinna við að losna við gamla undirliggjandi gremju. Reyni líka að sópa frá mér helvítis hrokanum sem er minn stærsti brestur. Það gengur mis vel með brestina. Suma tækla ég á staðnum, aðra þarf stöðugt að vera á varðbergi gagnvart. Í það minnsta vil ég ekki skipta á lífi með fundum og fá mér fundarleysi í staðin. Er búin að fá nóg af fundaleysinu.

fimmtudagur, maí 03, 2012

Ég verð að monta mig núna

Ég smíðaði þennan fína stand. Svo er maður að röfla yfir því að kunna ekkert til verka. Ég held að ég sé að standa sjálfan mig að verki með að þykjast ekkert kunna þegar ég nenni ekki að gera neitt. Nei segi svona, þetta gekk heldur ekki átakalaust fyrir sig en núna er ég sumsé kominn með þennan fína stand þar sem ég get kastað út maðk og lagt svo stöngina niður og byrjað að kasta flugu á meðan. -------------------------------------------------------------------

Drottinn bles svo í heimilið. Ég var að setja þetta fyrir ofan dyrnar en eitt essið klikkaði og varð eftir á renningnum. Þá komst ég að því að drottinn hafði blásið í heimilið mitt. Fann reyndar engan gust en sennilega hefur hann látið móðinn mása þegar ég svaf um nóttina. Er búinn að laga þetta mál núna og essið er komið á sinn stað. Ég hló svolítið að þessu. Jæja ég ætla eitthvað út í blíðuna. Husanlega fæ ég mér ís.

miðvikudagur, apríl 25, 2012

Þverhausar í Breiðholti

Það er með ólíkindum hvernig fullorðið fólk getur látið. Ég var á ferðinni um efra-Breiðholtið að sinna erindum hingað og þangað og í gangbrauta þrengingunni sem einhverra hluta vegna var breytt úr þrem metrum í þrjátíu, fór fram þrjóskukeppni. Fólksbíl sem ekið var vestur Norðurfell inná þrenginguna fékk á móti sér strætó úr austurátt og vildi hvorugur víkja. Nokkur röð bíla myndaðist í báðar áttir en í korter tuttugu mínútur stóðu bílarnir kyrrir. Úr varð að lögreglan var kölluð til, til þess að leysa ágreininginn. Niðurstaðan af öllu þrefinu varð sú að fólksbíllin var fenginn til að bakka þó svo að hann væri kominn lengra inn á þessa heimskulega þrengingu. Hefði haldið að strætó hefði átt að bakka enda ekki kominn allur inn á þrenginguna og ekki eins langt iná þrenginguna og fólksbíllinn. En jæja, hér getiði svo séð málsatvik. (smella á myndina til að sjá hana betur)

sunnudagur, mars 11, 2012

Það er þessi Landsdómur þarna...

Ég legg það nú ekki í vana minn að tala hér eitthvað um pólitík en get ekki orða bundist. Þetta landsdóms vesen er mjög svipað því og ef ég væri einhverstaðar innan um krimma sem ætla að ræna sjoppu og ég heyri það til þeirra og þeir vita að ég heyri hvað þeir ætla að gera og kemst svo líka að því hvenær þeir ætla að ræna sjoppuna. En ég sleppi því að hringja í lögregluna þannig að krimmarnir fara og ræna þessa sjoppu og setja hana þannig á hausinn. Svo kemst löggan nú reyndar að því hverjir rændu þessa sjoppu sem var eins og rúin inn að skinni eftir krimmana en láta nú þessa krimmadjöfla í friði. En í staðinn koma þeir til mín og handtaka mig af því að ég vissi af yfirvofandi sjoppuráni en varaði engan við. Og svo er verið að dæma mig, vitnið. Síðan mæta hinir seku og bera vitni þess að ég hafi vitað um allt sem þeir ætluðu að gera. Svo verð ég væntanlega dæmdur fyrir að vita um hvað krimmarnir ætluðu sér að gera en sjálfir krimmarnir sleppa.
Þetta er eitthvað svo öfugsnúið miðað við alla eðlilega hugsun. Æ ég veit það ekki... á morgun mæta nefnilega þeir Sigurður Einarsson, Lárus Welding, Halldór J. Kristjánsson, Sigurjón Þ. Árnason, og Björgólfur Guðmundsson til að bera vitni fyrir Landsdómi.

laugardagur, mars 10, 2012

Já ég bara bara


Ég varð dáldið skotinn í þessu þegar ég sá það á síðunni hjá Vöku. En ég leit síðan við á vökuuppoðið í dag, bara svona til þess að kíkja og fylgjast með. En ég leit svo nánar á þennan Ford Transit húsbíl. Hann leit auðvitað miklu betur út á heima síðu Vöku, en þegar að var gáð þá var þetta auðvitað handónýtt og alveg hrútgamalt(árg82). Hefði langað í hann ef hann hefði verið í því ástandi sem ég hélt að það væri. En ég hefði auðvitað aldrei keypt þennan húsbíl svona áhaldalaus og ekki með neina aðstöðu til þess að gera við það sem að er. Þó væri nú gaman að koma sér í eitthvað kompaní með öðrum og leiga verkstæði og sanka að sér áhöldum. Þá gæti maður bisað við að gera upp einhvern gamlan skrjóð og gert við mína eigin bíla sjálfur. Ég er nú svosem engin þúsundþjalasmiður og kann andskotan ekkert til verka og er í oft djöfulsvandræðum þegar eitthvað þarf að laga og gera við heima hjá mér. En þegar kemur að því að vesenast við að laga bíla þá er ég oftast á heimavelli. En jæja, fornbílar og hústrukkar verða víst að bíða betri tíma.

fimmtudagur, mars 08, 2012

Já og svo var það einnig...

Fórogsá Svartur á Leik á dögunum og eins og ævinlega þegar ég horfi á kvikmyndir, gerðar uppúr bók varð ég fyrir vonbrigðum. En fyrir utan það var myndin vel tekin og vel leikin og almennt vel gerð og skemmtileg. En samt fannst mér hálf klént þegar það er með því fyrsta sem mætti manni á hvítatjaldinu var besefinn á Jóhannesi Hauk. En jæja, bókin sat lengi í mér eftir að ég las hana en myndin er eins og aðrar sem ég horfi á gleymd fáeinum stundum síðar. Reyndar fór maður dálítið aftur í tíman við að heyra tónlistina í myndinni eins og í böndunum Gus Gus, Stjörnukisi og Bang Gang. Ég vil samt minnast á það að eina svona bókabíómynd sem ég hef séð og verið sáttur með, var Mýrin. Hún var gel unnin uppúr sjálfri bókinni.
------------------------------------
Ég fer stundum og verzla í Minimarket hér í Breiðholtinu til að fá eitthvað nýtt sem ég fæ ekki keypt annarstaðar. Ýmislegt hægt að fá þar af pólsku nammi og gosdrykkjum eða snakki. Eitt sem ég fann þarna var Trufla en ég truflaði engann á meðan ég át það. Kannski truflast ég í nótt þegar þetta er gengið lengra inn í meltingarveginn. Trufla er ágætis kókosdrull með súkkulaðihjúp. Ég bíð svo alltaf eftir því að þeir fari að selja Homma frá Bakoma. Væri athyglisvert að testa það.
----------------------------------------
Svo er það elskulegur bangsinn minn. Hann komst í leitirnar úr geymslunni heima hjá pabba og mömmu og búinn að liggja þar greyið eftir endalausa flutninga síðustu fjórtán árin. Eftir smá þvott og þurrkun náðist úr honum mesta geymslulyktin. Nú lúllar hann á milli mín og konunnar framvegins. Guð hvað ég var búinn að sakna hans.

miðvikudagur, febrúar 29, 2012

anpfiea

Er aðeins búinn að spila á bassann og stúdera demóin sem við vinirnir böggluðum saman. Finnst stundum að hægt væri að hluta sum þeirra eitthvað sundur og semja nýtt utan á þau. Svo er það vandinn, búinn að semja lag og að þurfa ða tjasla við það texsta eða þá búinn að spinna einhvern texta og þurfa að aula saman lagi við textann. Ekki mín sterka hlið. En allt kemur þetta sjálfsagt með því kalda. Mestu máli skiftir er að flýta sér ekki neitt heldur bara að láta hlutina malla í rólegheitunum hvað svosem verður úr þeim. Það er annað mál.

miðvikudagur, febrúar 08, 2012

Mín bók er dásamleg

Þá kom loksins að því eftir hverja yfirferðina á fætur annari að eitthvert bókaforlagið sæi sér fært um að gefa út glæpasöguna sem ég skrifaði. Vissi svosem að það kæmi að því einn daginn að einhver segði já. En það var þá líka fyrirhöfnin að nota megnið af frívöktunum útá sjó við að skrifa. Held að ég hefði orðið vitlaus af eirðarleysi ef ég hefði ekki verið að skrifa eitthvað eða bara almennt ekki verið að neitt skapandi. En allavega þá ætti komandi skrudda frá mér að gleðja unnendur glæpasgana, plús það að þeir fá inn nýjan höfund í alla flóruna.
Talandi um að vera skapandi þá höfum við tveir æskufélagar verið að tjasla saman demólögum og koma á einhverjum grunni fyrir pönkplötu. Sjáum hvernig það allt fer. Allt sem ég geri og stefni að er án yfirlýsinga. Það er best þannig. Þá þarf maður ekki að éta neitt oní sig ef allt fer svo óvart til helvítis. Þetta verður allavega eitthvað bras þar sem við erum á sitthvoru landshorninu en væntanlega hefst þetta nú. Það borgar sig bara að vera ekkert að flýta sér neitt. Þá fer maður ekki framúr sjálfum sér, það er það versta sem gerst getur.
Og núna ætla ég út að labba með hundinn.

fimmtudagur, febrúar 02, 2012

Drekkutímar

Drekkutímar voru helgistundir, og heimsóknir til vina oft stílaðar inná það hvort eitthvað vit væri í venjum á drekkutímum á hverjum bæ fyrir sig. Við vorum einmitt að ræða þetta nokkrir æskufélagarnir hjá hvaða vinum og leikfélögum hefði verið best og verst að sitja í drekkutímum. Fólk sem þekkir mig veit að ég er mikið fyrir að éta og átti það sérstaklega við um það þegar ég var krakki. Enda síétandi og alltaf hugsandi um eitthvað sem gott væri í gogginn. Á flestum stöðum var þetta nú ágætt og svosem yfir ekki neinu að kvarta. Sumstaðar eins og heima hjá mér átti alltaf að byrja á brauðinu. Ég fílaði þetta brauðdrasl yfirleitt heldur illa og á einu heimilunu var nú oft bara brauð og þá varð maður nú helvíti skúffaður yfir því. Yfirleitt var nú í boði að fá sér neskakó sem manni féll nú vel í geð og þá var nú húsmóður á viðkomandi stað fyrirgefið bara ef það var gott álegg með. Svo voru það tveir staðir þar sem ég var sjaldan í drekkutíma en þó voru nú kökur og kex á boðstólnum og neskakó líka en vandinn var bara sá að feðgarnir í öðru húsinu voru alltaf öskrandi á hvern annan við matarborðið og á hinum bænum var leikfélaginn ekkert nema fjandans tussutalið og svívirðingarnar við hana móður sína þarna í eldhúsinu. Ekki gaman að sitja undir slíku ástandi og erfitt að njóta kaffibrauðsins á meðan háværar skoðanir fólks um hvert annað fuku þeirra á milli, jafnvel þó að maður hafi fengið köku. Svo var það nú bara á einum staðnum að maður fékk nú bara aldrei neitt. Maður búinn í skólanum, jafnvel búinn að vera í sundi eða íþróttum og kominn sársvangur í heimsókn og ætlaðist til að fá eitthvað að éta. Nei nei og maður fór bara miklu svangari heim. "Maður fer þá með nesti hingað næst," hugsaði ég eitt sinn þegar ég var að labba heim frá vininum. Svo var það helvítis brauðið. Einu sinni var ég að leika við einn krakka þarna og það var kallað í drekkutímann og ég hafði nú aldrei mína hunds og kattartíð vitað annað eins rugl. Brauðbollur, smjör og sæmundur og svo bara vatn. Já já, nesti þegar ég kem hingað eða bara koma aldrei aftur. Djöfull varð ég fúll. Einu sinni fór ég mér svo óðslega í einum drekkutímanum að ég stóð upp, labbaði út í garð og ældi. Síðan labbaði ég aftur inn eins og ekkert hefði í skorist og hélt áfram að éta. Ég var nú reyndar undir rest þessa kaffitíma spurður að því hvort ég fengi ekkert að éta heima hjá mér. En það vissi náttúrulega enginn um æluna og ég gætti mín alltaf framvegins.
Jæja ég ætla að horfa á Breaking Bad núna.

mánudagur, janúar 30, 2012

Þarminn

Þorrinn er byrjaður fyrir einhverju síðan og ég ekki farinn á þorrablót ennþá, ekki frekar en þorra síðustu ára. En auðvitað treð ég í mig þorramatnum, kæstum og súrsuðum eins og enginn sé morgundagurinn og uppsker öskrandi brjóstsviða fyrir vikið. Einhvern veginn finnst mér vanta kæsta skötu í þetta allt saman og finnst það leiðinda dilla að þetta skuli eingöngu tengjast þorláksmessu. Ég gerði það að vísu þegar ég var til sjós að kæsa mér tindabikkju nokkur skipti. Ágætt að fá sér þetta tvisvar til þrisvar á ári eða svona eftir því sem maður nennir að kæsa. Nú hef ég auðvitað engan aðgang að skötu eða tindabikkju þannig að ég læt mig hafa það að éta kæstan fisk einu sinni á ári. Helvítis.
---------------------------------

sunnudagur, janúar 29, 2012

Við þjóðveginn


Konan og ég þurftum að gera okkur ferð norðrí Skagafjörð í dag og rétt búinn að keyra um Vatnsskarð þegar ekið er fram á mann standa með tösku útvið einn bæjarafleggjarann. Sáum að þetta var sjálfur Jón Guðmundur Hvammdal Guðlaugsson eða Jón hlaupari eins og menn kalla hann oft. Við stoppuðuðum til að bjóða honum að sitja í að Varmahlíð svo að hann gæti yljað sér þar. En hann var nú bara að bíða eftir rútunni til Akureyrar og spurði okkur hvort að við hefðum orðið hennar vör. Ég mundi nú svosem ekki eftir neinni rútu svona lauslega að gáð í athyglisbrestaskjalaskáp heilans en við kjöftuðum samt svolitla stund um daginn og veginn þar til förinni var haldið áfram akandi og Jón hélt áfram að bíða eftir Akureyrarrútunni. Gaman að rekast á hann þarna við þjóðveginn. Nokkuð gott. Ég er líka alltaf jafn hrifinn af hárgreiðslunni hans. Ég er að spá í að hætta að vera greiddur eins og Kormákur Geirharðsson og Jón Gnarr og greiða mér eins og Jón hlaupari.
----------------------------------------
Og svo er það sketsamynd.

mánudagur, janúar 23, 2012

Veiðihjól

Keypti mér þetta veiðihjól, Abu Garcia 6600 BCX, í USA síðasta haust. Átti annað fyrir, nákvæmlega eins veiðihjól sem pabbi keypti hand mér þegar ég var 13ára. Þá hafði hann fundið það á sölu hjá viðgerðarmanni sem var búinn að vera með það í hillu hjá sér lengi lengi en alveg ný uppgert. Það hjól nota ég enn þann daginn í dag, en ákvað að skipta og fá mér nýtt þar sem gamla hjólið frá babba mínum fer að verða komið til ára sinna. Svo átti ég fáein 5000 króna gjafabréf sem mér höfðu verið gefin í jólagjöf í hitteðfyrra. Fór og keypti mér ágæta veiðistöng fyrir þann pening. Þá er bara að bíða til sumars og nota græjurnar samhliða flugu græjunum. Maður þarf svo að læra betur inná þessar flugur líka þær geta verið svo mismunandi. Ein flugan getur verið tekin alveg af milljón fiskum einn daginn en daginn eftir virkar sama fluga ekki rassgat.
Reykjadalsáin. Hér er ég oft í draumi. Reyndar líka víðar um ánna og oftar en ekki er ég búinn að setja í lax eða silung. Þarf svo að koma mér í veiði þarna heima í raunveruleikanum. Orðið langt síðan síðast, allt of langt. Ég djöflaðist þarna mikið með bæði spón og maðk þegar ég var strákur og kom ævinlega með titt eða tvo heim í soðið og allir urðu ánægðir með að það væri þá eitthvað gagn af manni með þessa veiðidellu.

sunnudagur, janúar 22, 2012

Já já það held ég bara

Assgoti góðir dagar að undanförnu. Fór í Kolaportið og verslaði mér hákarl og niðursoðna þorskalifur sem er voðalega gott að setja oná rúgbrauð. Fékk að vísu hvínandi brjóstsviða af þessu en því var reddað með Samaríni. Kaffi með því er svo til að bæta það. Kaffi hressir bætir og kætir finnst mér. Annars gerir maður lítið annað en að liggja í neftóbaki og skrifum þessa dagana. Það hefur loksins borið til tíðinda með handritið mitt en frá því verður greint betur síðar. Annars er ég hálf vængbrotinn með þessa síðu þar sem ég get ekki póstað hér inn mp3 en lagfæringar á því eru væntanlegar innan skamms. Núna þarf ég að fara í búðina og kaupa eitthvað í matinn.

fimmtudagur, janúar 19, 2012

Draugar og Nick Cave


Draumaforritið í hausnum á mér er vel virkt nú um mundir. Í nótt dreymdi mig að ég væri að keyra vörubíl um einhvern afskekktan þjóðveg, ómalbikaðan. Farmurinn var sement sem átti að fara frá Rvk til Vopnafjarðar. Svo kom upp sú staða að vegurinn endaði allt í einu og ég þurfti að snúa við til að finna vegamót svo að ég kæmist leiðar minnar. Ég kom að krossgötum þar sem ég taldi mig giska á rétta leið og skömmu eftir að ég hafði tekið beygjuna tók ég uppí bílinn puttaferðalanga sem voru þrír í hóp, róni, vændiskona og melludólgur. Melludólgurinn og mellan settust á bekkinn aftan við bílsætin en rónin í farþegasætið við hliðina á mér. Eftir dálítinn akstur tók ég eftir því að farþegarnir voru ekki af okkar heimi og virtist fjölga og fækka í hópnum á víxl. Tveir menn í jakkafötum voru komnir á bekkinn og svo hurfu þeir en í staðinn var kominn bóndi í fjósagalla og fór að reyna að hugga melluna sem var eitthvað grenjandi. Róninn sagðist svo að þau ætluðu út við næstu bensínstöð og ég tók bara vel í það. Ég fór sérstaklega að reyna að drífa mig með þau þegar hausin á rónanaum fór að breytast á víxl í hauskúpu og hans eigin haus. Svo komum við að bensínstöðinni sem samanstóð af einum skúr og tveim bensíndælum. Ein dælan var fyrir bensín og hin fyrir dísel. Ég stoppaði bílinn, steig út og gekk inn í skúrinn og gaf mig á til við luralegan bensínafgreiðslumanninn. "Það eru hérna draugar sem fengu far með mér og ég þarf að láta þá út hérna". Afgreiðslumaðurinn virtist ekkert yfir sig hrifinn en og sagðist alls ekki vilja þessa drauga við bensínstöðina. Ég sagði honum að það væri þá bara hans vandamál og steig uppí vörubílunn. Draugarnir voru á bak og burt og ég setti í gang og keyrði af stað en ég hafði nú rétt ekið af bíla planinu þegar maður kom klaupandi í kantinum á móti bílnum. Hann var með dökkt hár í svörtum frakka og með gítartösku í hönd og gaf til kyna að hann vildi far. Ég auðvitað stoppaði og bauð honum að sitja í og þegar hann var sestur uppí bílinn, sá ég það að þarna var enginn annar en Nick Cave á ferðinni. Hann tók upp gítarinn og spilaði og söng, a whiter pale of shade af mikili næmni. Svo þegar við nálguðumst Vopnafjörð leystist draumurinn í eitthvað óljóst bull og þar með vaknaði ég.
-----------------------------------------
Þið verðið að smella á myndina til að sjá hana almennilega.

sunnudagur, janúar 15, 2012

Dularfulli maðurinn


Kannast einhver við þennan kallfugl. Hann mætti í brúðkaup okkar hjóna en ég hélt alltaf að þetta væri einhver úr ætt konunnar og konan hélt það svo öfugt en við erum víst ekkert tengd þessum manni og vitum ekkert hver þetta er. Mér leikur forvitni á að vita hver þetta er og hvað hann var að gera þarna til þess að taka myndir af okkur, honum ókunnugu fólkinu. Ég myndi gjarnan vilja spyrja hann. Þú mátt lesandi góður ef þú veist hver þetta er, láta mig vita á meilið mitt.(mannandskoti@hotmail.com)
-------------------------------
Og svo er það sketsamynd.

Þú verður að smella á myndina til að sjá hana betur.

föstudagur, janúar 13, 2012

Eirðarlaus

Mér hefði þótt gott að hafa svona með mér í skólann í denn. Hefði hentað vel þegar maður var kannski eins og ósofinn apaköttur í tímum og nennti ekki að fylgjast með. En þá varð maður auðvitað bara að fylgjast með eða teikna einhverja vitleysu. Jafnvel að fá að skreppa á klósettið til að stelast í snuffdósina sína eða jafnvel að setjast á klósettið og fá að dotta þar í friði í óáreittur fram að frímínútum. Jú,jú, það gat nú verið ágætt í sumum tímum. Enska. Lagði soldið kapp á hana. Íslenska, já fannst áhugavert og mikilvægt að fylgjast með þar. Dönsku þoldi ég ekki. Reyndi við stærðfræði en skildi ekki. Enganvegin. Held bara að skólakerfið hafi ekki kunnað að meðhöndla AD/HD á þessum tíma eins og í dag. Mannkynssaga, landafræði og þannig var mér hugleikið en auðvitað var maður bara of eirðarlaus til að læra eitthvað heima. Annars fílaði ég mig vel í smíðum og matreiðslu, já og myndlist og allri svona verklegri kennslu. Nóg um þetta hér er svo ein teikningin úr einhverjum eirðarleysistímanum.

mánudagur, janúar 09, 2012

Jólalok

Nú eru jólin liðin undir lok og ég á ennþá eftir að klára að skjóta upp restinni af flugeldunum sem ég keypti nú fyrir áramótin. Það er merkilegt hvað maður verður stjórnlaus þegar komið er inn í flugeldamarkaðina. Það er eitthvað sem grípur um sig, einhver óskilgreind geðveila. Ætlunin kannski að kaupa nú bara smotterí fyrir þessi áramótin en endar allt með risaflugeldum og heví skotkökum. Þetta er náttúrulega veiki. En ekki reyki ég sígaretturnar né heldur svolgra í mig brennivíni svo að það má þá alveg fara á flugeldafyllirí einu sinni á ári. Ég hlakka yfirhöfuð jafn mikið til áramótanna eins og ég hlakka til jólanna. Það er eitthvað. Einu sinni þegar ég var patti þá kveikti ég lítið bál utan í húsinu heima í sveit á sjálfan gamlársdag. Munaði þá litlu að sjálft húsið yrði að gamlársbrennu ef ekki hefði verið góður frændi minn sem hjálpaði mér að slökkva bálið og í logandi sinuni sem var utan í húsveggnum. Svona var maður gaga krakki.

sunnudagur, janúar 08, 2012

Búmmbarabei

Þegar maður nennir ekki að velta sér uppúr hinni stjórnlausu strengjabrúðupólitík landsins eða öðrum þjóðfélagslegum hörmungum sem koma manni bara í vont skap þá er þrengra úrvalið til að finna eitthvað til að blogga um. En það er alltaf eitthvað hægt að finna til að blogga um. Já, í staðinn reyni ég að segja eitthvað draugalegt eða koma með einhverjar klámvísur eða einhvern fjandann. Ég nenni ekki að hafa þessa síðu sem eitthvað eyjubloggaraviðrinispólitíkusardrulluhakk. Hver á að verða næsti forseti? Helvítis skattaálögurnar hans Steingríms. Gagnleysið í henni Jóhönnu. Og aumingjaskapurinn hjá pakkinu í ASÍ.
Hver segir svo að blogg sé ekki málefnalegt nema að talað sé um málefni. Hvað er ég að gera núna?
------------------------------------
Datt niður á möppu frá barnaskólaárunum með slatta af einhverjum svona skotteikningum. Eitthvað sem ég hef dundað við þegar ég nennti ekki að fylgjast með í tímum sem var nú reyndar nokkuð oft og því mikið til af teikningum hjá mér. Oftast er þetta einn rammi og stundum tveir eða þrír. Bara svona eftir því hvað mikið er að gerast í hverju andartaki fyrir sig. Ég hugsa að ég sletti þessu hér inn með reglulegu millibili. Hér er þá það fyrsta.

þriðjudagur, janúar 03, 2012

Undir sængina

Þarf að koma mér í bælið. Svefninn hefur ekki verið að stríða mér síðustu sólarhringana. Allt í lagi með mig þannig. 'Eg er búinn að lesa Feigð eftir Stefán Mána, hún var ókei góð og Eingvígið var æihhhh....(dæs). Jæja skiftir ekki máli. Ég vona að ég verið ekki fyrir vonbrigðum með Yrsu Sigurðar. Fer sennilega í að lesa Brakið á næstu dögum ef mamma er búin að lesa bókina. Og þá fær hún Arnaldinn til baka sem hún gaf mér og ég Yrsuna til baka sem ég gaf henni. Well well well... Mér fannst alltaf notalegt að sofna við unplugged diskin með Nirvana. Er að spá í að setja hann í til að sofna nú vel.
Andvökublogg

Hálf súrt að liggja andvaka um nætur. Þá reynir maður að lesa eitthvað eða jafnvel að kíkja á feisið eða bara einhvern fjandann til að þreyta sjálfan sig. Verst hvað maður verður pirraður af því að vera andvaka. Svefnlyf tek ég helst ekki nema þegar ég var út á sjó. Þá var óhikað skellt í sig einni Zopiclone Imovane ef erfitt var að sofna á frívaktinni. Reyndar þar sem ég svaf voru alltaf djöfuls læti, skipsskrúfan var sirka hálfan metra frá höfðagaflinum og plús veltingur og læti. En þetta er allt spurning um að venja sig við aðstæður. Ég var orðið hættur að geta sofið nema við helvítis lætin í skrúfunni og því oft svefnpillufrívaktir ef maður lenti í því að sofa í klefa fram á stefni þar sem lætin voru engin og veltingurinn var jafnan meiri heldur en fram aftur á rassgati. Í haugabrælum er bara ekki verandi framá stefni og maður hoppandi og skoppandi í kojunni. Lang þægilegast að vera afturá, þá kemur kokkurinn og ræsir mann á vaktina með því að kveikja ljós og kalla "RÆS". Ég þoldi aldrei að vakna við helvítis kallkerfið úr skipsbrúnni þar sem skipstjórinn eða stýrimaðurinn byrja á að setja af stað hávaða sem maður vaknar við með andfælum og orga svo "RÆS" í kerfið. Maður var stundum kominn á fremsta hlunn með að rífa helvítis kerfið af veggnum og grýta því út í sjó. Það er alltaf vont að vakna illa.
Jæja ég ætla að fara og athuga hvort ég geti ekki sofið eitthvað, þar sem klukkan er að rétt að verða fjögur.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Hinar hárugu krumlur

Ég las eitt sinn draugasögu frá Dartmoor í Devon sem er um hinar hárugu krumlur. Ferðamenn koma mikið á þessar slóðir því að þarna þykir mikil náttúrufegurð. Fyrir aldartugum og árþúsundum síðan var þarna bronsaldarþorp og tengja menn jafnan þessar hárugu krumlur eitthvað við þá gömlu byggð. Margir ferðamenn og heimafólk hefur því orðið á vegi þessara handa.
Þessir reimleikar hófust á þriðja áratug tuttugustualdar þar sem léttvögnum var velt um koll, stýri svipt úr höndum reiðhjólamanns svo að hann datt og slasaði sig. Kona nokkur sem átti leið þarna um þurfti að renna bílnum bílnum út í kant þar sem hann hafði drepið á sér og fór að skoða handbókina. Finnur hún brátt mikil ónot og finnst eins og horft sé á sig. Henni verður næst litið út um framrúðuna en sér hún sér til skelfingar svær stórar loðnar hendur mjakast eftir framrúðunni. Skelfing hennar var svo mikil að hún gleymdi því að bíllinn hefði verið bilaður en hrökk hann þó í gang í fyrstu atrennu. Maður nokkur sem keyrt hafði útaf veginum á þessum slóðum sagði að fjárans hendurnar hefðu birst sér í skyndingu og rifið í stýrið. Eins var það þegar hjón sem sváfu í húsbíl sínum, vöknuðu eftir stuttan svefn og sáu hvar hendurnar voru að krafsa og skriðu svo um rúðuna ofan við svefnholur þeirra.
Spúkí staður og hinar hárugu krumlur gera þarna vart við sig af og til með banki og krafsi og mig langar að kíkja þangað einhvern tímann.