blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: maí 2009

sunnudagur, maí 31, 2009

Andfúlskan

Næsta húsverk. Skipta um batterí í reykskynjaranum því að hann er að láta mig vita með reglulegu píbi að orkan sé á þrotum. Þetta helvítis píb pirrar mig. Kom að norðan í gær úr fermingu frænda míns og auðvitað þurfti Blönduóslögreglan að vera að tussast þar sem ég ók um Húnavatnssýslur. Það þýðir einn púnt í ferilsskránna og einhver sektardjöfull. Svo þessi löggukall og hvað hann var andfúll. Sennilega er eitthvað dautt uppí honum. Eitthvað dautt og búið að vera það lengi. Eitthvað dautt og búið að fylla það með fúleggjum. Æi ég nennti svo ekkert að rífast um að ég hefði verið á minni hraða og hélt kjafti. Annars var þetta bara fín norðurferð í alla kanta, gönguferðir og heimsóknir og auðvitað bara fínt að skreppa norður fyrst við í meiraprófinu rusluðum bara námskeiðinu af áður en vikan varð úti.

Trespass er bíómynd sem ég sá á unglingsárunum og eignaðist svo soundtrackið líka á cd. Ice-t og Ice cube, Bill Paxton og William Sadler eru í aðalhlutverki í myndinni og eihverjir aðrir amerískir kvikmyndasperðlar. Hlustið á lögin, þetta rappdrasl.

Sir Mix a Lot - I Check My Bank


Ice-T & Ice Cube - Trespass

miðvikudagur, maí 27, 2009

Síétandi

Svo keypti Anna svilkona candyflossvél. Alltaf gaman að fara í heimsókn núna og fá sér candyfloss. Ég er nú svo sjúkur í allt sem heitir nammi og sætindi þannig að mér er helzt hollast að sleppa því að kaupa svona vél því að þá enda ég bara sem bólugrafinn og tannlaus offitusjúklingur. Sveiattan ég verð að hætta að éta nammi svona almennt. Það sem er að redda mér frá bogadregnum línum er þrekhjólið, sippubandið og magaævingatækið. Er búinn að þjösnast á þessu dóti síðan um áramót. -----------------------------------------------------------------

En jæja mp3ið að þessu sinni er danskt. Það er semsagt hljómsveit í Danmörku sem heitir M.I.A Lyhne eftir samnefndri leikkonu þar í landi. En hún er einmitt frægust þar fyrir að leika kærustu Frank Kvam í sjónvarpsþáttunum Klovn. En allir hljómsveitarmeðlimir eru einmitt aðdáendur hennar. Svo eftir nokkurt ströggl tókst mér að grafa upp eitt lag með þessari hljómsveit en það heitir bara Mia Lyhne.

Mia Lyhne - Mia Lyhne

sunnudagur, maí 24, 2009

Sauðurinn þinn

Þá hefur bolur sumarsins verið keyptur á ebay fyrir 33 dollara plús eitthvað smá í shipping & handling. Þetta er eins og þið sjáið, Lakers hlýrabolur merktur Kareem Abdul-Jabbar #33. Það verður gaman að spássera um götur borgarinar í honum í sumar. Svo hér að neðan eru aðal bolirnir sem ég gekk hvað mest í í fyrrasumar og sumarið þar áður. Semsagt bolir sumarsins í fyrra og þaráður en ég var mikið öfundaður af því að eiga þessa boli. Svo er nú það.
-----------------------------------------------
Maður er svo að andskotast í þessum ökuskóla. En bóklegi áfangin verður kláraður í vikunni og þá taka verklegir trukkatímar við. Shit hvað maður hefur ekki minnsta hundsvit á öllum þessum búnaði í öllu draslinu, Demitt. Og lög og reglugerðir. Þetta kemur allt. Ég er ekki fáviti. Annars er ég ferkar tómur og hef ekkert að segja um það sem er búið að vera í fréttatímum enda ekki nennt að horfa eða hlusta á fréttir upp á síðkastið. En ég ætla að setja hér inn eitthvað smá mp3 tekknódrasl sem ég veit ekkert um og man ekkert hvernig ég fékk í hendurnar en það er langt síðan ég hef mp3að hér en það er auðvitað ekkert nema bara andskotans aulaháttur.

Tekknó nr.1


Tekknó nr.2


Tekknó nr.3

þriðjudagur, maí 19, 2009

ÍReykjavíkandskotinnerþetta

Þá er maður mættur í borgina á nýjan leik. Ég svaf á stíminu frá Þingeyri til Grindavíkur hér sem segir: 10:00 - 19:30. Þá skrapp ég upp og jat súpu hjá kokknum og fór á kjaftatörn við nokkra skipsfélaga uppí skipsprú. Fór svo aftur að sofa um 22:00 og vaknaði upp aftur klukkan 02:30 og gat ekki sofnað aftur. Núna er að koma kvöldmatur og ég búinn að vaka mig vitlausan.

Hér er svo myndband með vini mínum honum Finni. En kann er sannur listamaður í því sem hann tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er tónlist, myndlist eða að sitja fyrir á dindlinum. Finnur er Reykdælingur eins og undirritaður og því æskufélagi minn líka. En hvað músík snertir þá voru menn oft að þeyta skífum og spila á hljóðfæri saman í gamladaga. Já, ýmislegt var brallað. Það er meira að segja til einhverstaðar segulbandsupptökur með okkur Finni að syngja og spila á hljóðfærin, oftast ég á hljómborðið hans Trausta og Finnur með gítarinn. Það þarf að grafa helvítis kasettuna upp og reyna að finna einhvern sem hefur tök á að setja gúmmilaðið inn á tölvu. Þá sjálfsagt emmpéþría ég því hér niður í leiðinni.

mánudagur, maí 18, 2009

Þingeyri online
Og þá er verið að landa úr dallinum á Þingeyri. Ég fékk mér göngutúr niður í fjöru sá æstan svartan hund sem gelti að mér og hlæjandi máva. Núna eru bólugrafnir unglingar úti á túni að spila fótbolta. Sennilega eru krakkarnir í frímínútum. Ósköp vinalegt í þessu krummaskuði hérna.
Nú er ég smat að hugsa um að fara um borð aftur og leggjast uppí koju. Ná smá hvíld á meðan við tökum stímið til Grindavíkur.

laugardagur, maí 16, 2009

DraumavinurÍ nótt dreymdi mig að ég væri niðrí bæ á pöbbarölti ásamt vini mínum sem er ekki til í raunveruleikanum. Var þessi vinur minn hár að vexti skolhærður á fertugsaldri. Þetta var fyrrverandi togarasjómaður en daginn í dag starfandi kafari. Hann reykti Lucky Strike og svona almennt geðgóður í alla staði. Hann blótaði mikið yfir þeirri heimskulegu hjátrú að ekki megi elda svið úti á sjó því að slíkt boðar brælur og vond veður. Já við vorum alveg sammála um það og í raunveruleikanum er ég líka viss um að þetta sé komið frá einhverjum skipstjórafávita sem hafa þótt vond svið, logið þessu að hjátrúarfullum skítkokknum og kokkurinn síðan blaðrað þessu út um allt og úr orðið þessi asnalega hjátrú. Sjálfsagt hefur þessi skipstjóri verið einhver eigingjarn og sjálfselskur leiðinda skíthaus sem þurfti endilega að koma eigin sérvisku yfir á aðra. Meira andskotans fíflið. Ekki man ég meira um hvað okkur vinanna fór á milli nema hvað að hann langaði á sjóinn aftur en gat það ekki út af hnémeiðslum. Dálítið miss yfir því. En ekki veit ég hvað þessi draumur táknar en hann draumur situr í mér. Kannski er þetta einhver sem ég á eftir að kynnast síðar.

Annars er þetta góður dagur í dag, því að nákvæmlega uppá dag hef ég verið laus frá brennivínsdrykkju og öðrum boðefnasvindls efnum í 10 ár.

þriðjudagur, maí 12, 2009

Þvílíkt

Ég var nú búinn að ætla mér að birta hér einhvern lista yfir draslið á ipodinum mínum en það er ekki nokkur vinnandi vegur að setja 1300 laga lista hér inn. Ég myndi setja Blogger HF á hausinn ef ég myndi reyna við helminginn af því. En svona það helsta sem ég er með á ipodinum er með Metallica, Iron Maiden, Rolling Stones, Nick Cave, Nirvana, Offspring, Steelheart, Led Zeppelin, AC/DC, Beatles, Helloween, Rammstein, Bob Dylan, Nightwish, Suede, Beatles og mörg lög af sólóferli Lennons. Nú svo er það Prodigy, Baggalútur, Olympia, Ham og Utangarðsmenn.

Nú bland í poka, eitt lag upp í tíu með eftirfarandi flytjendum, Sepultura, Guns’n Roses, Napalm Death, U2, Lenny Kravitz, Staind, Muse, Slade, The Smashing Pumpkins, Rem, Def Leppard, The Doors, Creed, Deep Purple, Weezer, The Wite Stripes, Alice Cooper, Kiss, Boston, Bon Jovi, Bonnie tyler, Black Sabbath, Jimi Hendrix, Britney Spears, Leonard Cohen, Crash Test Dummies, Scorpions, Fleetwood Mac, Coldplay, Duran Duran, Blur, David Bowie, Elton John, Groove Armada, Fatboy Slim, James Blunt, Shania Twain, Garbage, Toby Keith, Antony & The Johnsons, Alizee, Michael McDonald, Bloodhound Gang, Nashwille Pussy, Sex pistols, Slipknot, Radiohead og Pink Floyd,

Íslenst bland í poka, Sálin, Sóldögg, Todmobile, Quarashi, Ný Dönsk, Dr gunni, Tappi tíkarass, Unun, Hljómar, Hjaltalín, Megas, Hellvar, Ríkið, Reykjavík, Douglas Wilson, Sprengjuhöllin, Vínyll, 200.000 Naglbítar, GusGus, Múm, Mammút, Bangang, Fræbblarnir (og allt Rokk í Reykjavík gúmmilaðið) Hinn íslenski Þursaflokkur, Eik, Greifarnir, Írafár, Laddi, Stuðmenn, Buttercup, Dr Spock, Outloud, Flosi ólafsson og Pops, Kaktus, Ljótu Hálfvitarnir, Risaeðlan, Grýlurnar, Gautar og Sverrir Stormsker.
Bubbi Morthens hafði stóran sess á ipodinum en lögin hans eru orðin svo útspiluð og gegnnauðguð að ég hef hent þeim mjög mörgum út og fellur Bubbi því undir bland í poka. Það er mikill lagahræringur af Billboard og allskonar stöff af PottÞétt og Now.
Svo er ýmislegt gúmmilaði af mp3 bloggsíðum Doktorsins, Einars og Sýrðarjómans og annara mp3 bloggara. Einnig er kántrýíð og blúsinn ríkjandi á Ipodinum. Helstu blúsarar eru engir bara heilmikið bland héðan og þaðan, þekkt og ekki þekkt. Einnig á það sama við um Kántrýið. Þó er Willie Nelson með stóran sess inná kubbnum. Annars er heilmikið dótarí á poddaranum sem ég veit ekkert hvað er. Bara merkt eitthvað merkt “Track”, en mest af þessu stöffi er keypt og fengið á heiðarlegan hátt í plötubúðum eða á tonlist.is. En það verður að segjast að mikið af þessu dóti er síðan frá DC++ siðspillingunni þegar landsmönnum þótti sjálfsagt að hala niður tónlist og kvikmyndum af netinu án þess að borga fyrir það. Sveimér.

Svo er ég hérna með gúmmilaði frá Króatíu gaman að hlusta á það einstaka sinnum.


Drazen Zecic - Bez tebe


Safet Isovic - Bosno moja

föstudagur, maí 08, 2009

Kolvitlausir mennÆtli Breiðholtið beri ekki nafn með rentu þegar talað er um glæpahverfi því að eitt kvöldið þegar ég var á sjónum og frúin ein heima með litla gaurinn okkar var dinglað heldur frekjulega dyrabjöllunni og barið full hressilega að dyrum. Var gestur þessi maður á miðjum aldri, lufsulegur til fara og slagandi af ölvun. Og vegna þess útgangs og hegðunar var honum ekki hleypt í bæinn. Því fór nú húsfrúin að eldhúsglugganum sem er við hliðina á útidyrunum, kallaði á manninn og spurði hvað hann vildi. Hann vildi að hringt yrði fyrir sig á leigubíl. Jú, jú, það var svosem alveg sjálfsagt og taxinn kom svo skömmu síðar og maðurinn hvarf á braut í taxanum út í myrkrið. Henni fannst þetta samt dálítið óþægilegt.

En nokkrum kvöldum eftir þetta var dyrabjöllunni hringt aftur og með enn verri látum og hurðarbankið eiginlega bara eitthvert helvítis brambolt. Og það var eins og fyrr, öll samskipti höfð í gegn um eldhúsgluggann því að gesturinn að þessu sinni var líkt og gesturinn sem áður hafði komið kvöldum áður, ölvaður eða dópaður en mun sóðalegri til fara og í allastaði æstur og dólgslegur í hegðun. Hann heimtaði að pöntuð yrði fyrir sig pizza en það var að mati konunnar alveg fráleitt mál og vísaði manninum burt en þá brjálaðist helvítis maðurinn eins og ótaminn foli með sígarettuglóð á bellinum og fór að öskra og berja á eldhúsgluggann eins og geðsjúkur öskurapi með úlf í endaþarminum. Fór það svo að hringt var á lögreglu sem kom auðvitað á staðinn þegar helvítis fíflið var horfði á braut.

Þriðji maðurinn bankaði barði að dyrum á íbúðinni við hliðina. Þar sagði konan sem þar á heima svo frá að hún hefði í raun asnast til að opna dyrnar fyrir honum en hann heimtaði að sér yrði gefinn peningur fyrir strætófargjaldi en konan varð ekki við þeirri heimtufrekju og ætlaði að loka á manninn en þá reyndi hann að troðast inn á hana. Hún rétt náði að loka dyrunum en þá fór hann yfir að þarnæstu íbúð og var brjálaður. Löggan náði í þann mannandskota.

Já ég held þið séuð kolvitlausir bara. Andskotans.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Þvaður og meira jaríjarí

Íslenska plata vikunnar á Rás2 er Inniheldur með DrGunna. Ég er búinn að verzla mér eintak og er búinn að hlusta dálítið á diskinn. Hef að vísu ekki hlustað á Rás2 til að heyra hvað höfundurinn segir um hvert lag þegar spilað er af plötunni. Ég er eiginlega kominn með drullu af Rás2. Menn verða frekar þreyttir á sömu útvarpsmönnunum þegar ekkert er í boði nema sama útvarpsstöðin í langan tíma eins og á sjónum. Þá hefur ipodinn reddað geðheilsunni. Fékk fyrst skitu af völdum Rás2 þegar ég var krakki í sveitinni heima. Þá kom maður heim úr skólanum að éta í hádeginu og Gestur Einar var með þáttinn Hvítir Mávar. Þá þurfti maður alltaf að heyra þvaðrið í honum á meðan maður þvældi í sig ýsu eða slátri. Vond æsku minning þar. Reyndar þótti skemmtilegt þegar unnið var í Laugafiski að faxa einhverjar falskveðjur í þáttinn og láta manninn lesa upp eitthvert helvítis rugl í útvarpið. Sumt var svo mikið andskotans rugl að Gestur átti það til að henda frá sér blaðinu og byrja á einhverju öðru. Þá lágum við vinirnir sem stóðum að þessu fram á glenningarborðið öskrandi úr hlátri. En vesen varðandi útvarp snarlagaðist nú þegar loksins var farið að senda Bylgjuna út frá endurvarpsstöðinni á Skollahnjúk. Þá fengum við loksins smá fjölbreytni í Reykjadalinn. Sama sumar og Bylgjan var fyrst send út þarna heima var þátturinn, mig minnir Tveir Með Öllu. Já þetta var í eldgamladaga.

Svo fékk ég þessa flottu nba-mynd inn um póstlúguna um daginn Július Erving í Topps 79-80. Gaman gaman nema hvað að nú þarf helst að gá að sér með sendingar frá Amríku vegna Svínaflensunnar. Phihihi

sunnudagur, maí 03, 2009

Organdi

Uhh... Já... Daglangt stopp frá sjómennsku. Farið út aftur í kvöld. Komið aftur í vikulokin. Helvítis, ég hefði vilja fara á tónleika á Sódómu og styðja hljómsveit söngvarans sem stakkst á nasirnar út um gluggann niðrí bæ um daginn. Vonum að guð gefi að hann hann nái sér kallinn.
Var að spá hvort að ekki yrði gaman að fara í hugleiðslutíma hjá David Lynch og losna við andskotans geðvonskuna. Reyna að vera aðeins geðbetri almennt og losna við Ástþórinn sem blundar innra með mér. Þá getur maður kannski hætt að þeyta hlutum út um allt vegna smámuna. Annars er ég búinn að vera voðalega þungur síðustu vikurnar. Alveg organdi tilvistarkreppa í gangi.