blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: júlí 2012

miðvikudagur, júlí 25, 2012

Bambarabamm

Svo dreymdi mig í nótt að ég væri í slagtogi með vafasömu og misgáfulegu fólki í undirheimum Reykjavíkur og til stóð eitthvað glæpsamlegt að gera til að græða á. Ég vildi nú heldur draga mig út úr þessu en lét til leiðast að leggja fé í þetta brask sem ég vissi ekki alveg hvað var og hafði slæma tilfinningu fyrir því sem var í uppsiglingu og dró mig út úr þessu. Síðan var ég á labbi í þröngu porti þegar ég mæti rannsóknarlögreglumanni(leit út eins og Kurtwood Smith, sennilega leikinn af honum bara) sem veittist að mér og keyrði mig út í vegg og sagðist fylgjast með öllu. Ég sagði honum að ég væri ekkert að gera af mér og hann gæti því djöflast í þessu liði sem ég hafði verið að umgangast í stað þess að bögga mig. Síðan fór mig að dreyma ýmislegt óljóst bull og var þessi Kurtwood Smith-lögga allstaðar að bregða fyrir hvar sem ég var staddur í draumum mínum. Sat meira að segja á næsta borði við mig þar sem ég var staddur í giftingaveislu og var líka fyrir aftan mig í röð þar sem ég var í matvörubúð að bíða eftir afgreiðslu og svo mætti honum á bíl þar sem ég var að keyra um götur Breiðholts. Í lokin var ég svo kominn til að taka við þessum ólöglega gróða sem ég hafði lagt fé í til ávöxtunar(skil samt ekki, ég hafði dregið mig út úr þessu). Staddur á bílaplani við einhvert veitingahús í Keflavík. Sá ég bíl löggukarlsins álengdar og vissi því að helvítis kallinn var að fylgjast með mér og hinum. „Nei," sagði ég þegar otað var að mér tösku með peningum, „ekki þessa helvítis blóðpeninga." Svo fór ég inn á veitingastaðinn, gekk inn á klósettið og meig í klósettskálina en í því þegar ég klára er að renna upp buxnaklaufinni kemur Kurtwood Smith-löggan og ræðst á mig og erum við að slást góða stund þegar mér tekst að rota hann með því að berja hausnum á honum í vaskinn, fer út á bílaplanið og tek við peningunum fullur réttlætiskenndar þar sem ég hef fengið nóg af því að vera eltur af þessari löggu sem var að ásækja mig. Sennilega mun ég aldrei líta Kurtwood Smith sömu augum og ég hef gert þegar ég horfi á That’s 70s Show.

sunnudagur, júlí 08, 2012

Gróði og lýgi

Einu sinni fyrir mörgum árum þurfti ég að fara í innheimtudeildina hjá RÚV til þess að ljúga því að ég ætti ekkert sjónvarp, svona til þess að losna við það að borga afnotagjöldin. Þegar ég labbaði þar inn fann ég fimmþúsundkall á gólfinu og hirti hann auðvitað, laug því svo að ég ætti ekkert sjónvarp, komst upp með það og labbaði út þurfandi ekki að borga afnotagjöldin plús með fimmþúsundkall í vasanum. Gróðinn var því 200%. Ekki allir svo heppnir að labba þaðan út í svo miklum gróða.

föstudagur, júlí 06, 2012

Jarðarband

Og þá var nú stormað á Stokkseyri í vikunni með viðliti í draugasetrinu. Voðalega flott dæmi sem maður labbar þarna um og allt gert voðalega draugalegt og skemmtilegt. Og svo er maður látinn hlusta á iPod og gædaður þarna í gegn með draugasögum. Svo hafa þeir tekið upp á því að vera þarna með einhver krakkaskít klæddan upp eins og móra. Sá stekkur í veg fyrir mann svo að manni bregði ógeðslega. Já ég sagði það, bregða ógeðslega. Ég er nú reyndar svo jarðbundin að ég finn aldrei neitt eða sé né heyri nokkurn skapaðan hlut að handan, að undanskildum óróanum í svefnherberginu mínu sem fór að sveiflast á fullu þarna hangandi uppí loftinu án þess að nokkur kæmi þar við. Allir gluggar voru lokaðir svo að enginn möguleiki á vindsúg var að ræða í þessu tilfelli. Já og skuggi sem ég sá eitt sinn bregða fyrir, þar sem ég gat ekki komið fyrir mig neinni almennilegri skýringu. Já maður er svo jarðbundinn eitthvað, enda alinn upp í kring um afar jarðbundið fólk. Aldrei var talað um álfa eða huldufólk eða reimleika á mínum bæ. Foreldrarnir spýttu í allar áttir ef reynt var að fá þau til að spjalla um slíkt. Ég reyndi einu sinni að kreista eitthvað uppúr afa mínum um dulræna hluti. En það var eitthvað voðalega lítið sem hann nennti að ræða um svoleiðis. Eldri bróðir minn giftist inní fjölskyldu þar sem fólkið var mikið að velta fyrir sér lífinu eftir dauðann, fóru á miðilsfundi og svoleiðis en hann hló nú bara framan í fólkið þegar reynt var að telja honum trú um slíkt. Mér líkar svo sem ágætlega að vera ekki í neinni snertingu við andaheimana og fínt að vera ómóttækilegur gagnvart því. Hleypi því heldur ekki of nálægt mér. Ég vil að framliðnir haldi sér á sínum stað og við á okkar. En þetta fylgir fólki víst mis mikið. Kona nokkur sem ég þekki hefur upplifað ýmislegt. Hún hefur séð hluti á borð við bækur og hin og þessi búsáhöld fara af stað heima hjá sér. Einu sinni gerðist það að kaffikanna og bolli sem stóðu á eldhúsborðinu hennar, lyftust upp og svo hallaði kaffikannan fram og hellti kaffi í bollann. Vinur minn var eitt sinn heima hjá sér og var að lesa inn í stofu þegar útvarpið fer að lækka niður í sér af sjálfsdáðum. Nú hann stendur upp og hækkar aftur í tækinu en þegar hann er svo sestur aftur niður en þá lækkar í tækinu. Hann stendur upp og hækkar á nýjan leik og sest niður en þá endurtekur sagan sig. Þá verður honum nú bara að orði, „viltu ekki bara slökkva á þessu”. Það var eins og við manninn mælt. Það slokknaði bara á tækinu. Jæja þá held ég að best sé að fá sér göngutúr með hundinn og vita hvernig jarðaberja beðin mín hafa blómstrað í dag.

sunnudagur, júlí 01, 2012

Gamlir tímar og rugl

Alltaf skal maður vera spáandi i fortíðinni. Er undirmeðvitundin virkilega svona mörg gígabæt að eitthvað poppar upp í draumi, tengt einhverju sem maður hélt að maður væri búinn að gleyma fyrir löngu síðan birtist manni sem heilskær minning, eins og hún hafi gerst í gær eða, þessvegna bara rétt áðan? Ekki er þetta neitt merkilegt miðað við það þegar ég fékk raflostið úr lampanum uppá háalofti þegar ég var lítill eða þegar ég var rétt nærri því búinn að hengja mig í buxnabeltinu hennar mömmu. Helvítis fikt alltaf. Einu sinni var ég nærri því búinn að kveikja í skemmuni þegar ég ákvað að kveikja aðeins í sinunni fyrir utan hana. Eins gott að ég náði að slökkva eldinn og sem betur fer voru foreldrarnir í kaupstað þegar þetta skeði. Þá hefði ég nú aldeilis fengið fyrir ferðina. Svo af því að það var svo mikið drasl þarna fyrir utan þá tók ég bara drasl og setti yfir brunablettinn og faldi hann þannig. Þau vita sennilega ekki neitt um þetta í dag. Og sem betur fer kviknaði ekki í skemmuni. Gastæki og allskonar eldfimt drasl þar inni. Svo líka á gamlársdegi, þá kveikti ég nú bara lítið bál utan í húsinu heima hjá mér. Þykir mildi að fullorðið fólk kom þar að og slökkti bálið og í sinuni utan í húsinu áður en allt fór í bál og brand. Svo varð maður hissa þegar manni var sagt að maður væri klikkaður krakki. En nú er bara að snúa sér að einhverju að til að pæla í. Gera það sem þarf að gera. Lífið er flókið en engin geimvísindi samt.