blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: desember 2015

fimmtudagur, desember 31, 2015



...þá var það árið 2015



Jáhhh... árið 2015 byrjaði sem framhald af ömurlegri endingu á árinu 2014. Ég var að skilja, átti hvergi heima, átti varla höfði að halla neinsstaðar vann og vann á taxanum og átti þannig lagað heima í honum fram á vorið eða þegar ég leigði mér húsnæði á sveitabæ utan við borgina. Var í kvíða og stressi og almennri vanlíðan og pirringi allt vorið. Nú – Þá var komið að því að selja þetta raðhús sem við hjónin áttum og fengum við fínt tilboð sem við gengum að og allt gekk fínt þar til að kaupandinn fór að vera með bögg. Í rauninni  var það vegna galla sem sýndir voru við kynningu á eigninni og komu fram í samningi. En það átti að snuða af manni eitt stk. lokagreiðslu uppá nokkrar milljónir. Þessi dans gekk það langt að það þurfti að fá fagmannsekju sem talsmann fyrir okkur og var boðað til fundar við kaupandann (sem reyndar mætti ekki, heldur bara lögfræðingurinn hans) og fasteignasalinn sem að mínu mati tók upp málstað kaupandans en var ekki hlutlaus. En jæja þetta hafðist og lokagreiðslan gekk í gegn. Hólabergið var góður staður að búa á og allt það ef frá eru taldir tveir nágrannar sem... æi ég nenni ekki að eyða orðum í þau fífl.
Sumarið kom – fyrir tilviljun hitti ég elskuna mína sem ég bý með núna, Nikólínu. Þar sem helvítis homminn vildi mig ekki, svo að ég hafði farið að róa á ný mið og hitti hana. Guði sé lof. Eftir að hafa hitt hana í nokkurn tíma var ég nú eiginlega ekkert á þeim buxunum að fara í eitthvað smaband strax en fuck it, „ég byrja þá bara með henni“ sagði ég með við sjálfan mig og ég fann að þetta var það besta ákvörðun sem ég hafði tekið lengi. Homminn má skammast sín.
Nú jæja. Ég var alltaf að vinna á taxanum og var svona eitt og annað farið að lagast til. Reyndar fór bissnessinn þetta sumar ekki alveg eins og ég ætlaði mér en svo fór að ég fékk uppí hendurnar bílaleigu með tilheyrandi brasi og pati. Ég leigði þessa bíla út nokkuð snuðrulaust fyrir sig en auðvitað var slatti af biliríi og rugli að þurfa að láta fólk hafa eitthvað annað en það var búið að panta og allir hundfúlir og jarí jarí. Svo var þetta drasl í misjöfnu ástandi en var orðið allt í döðlum eftir sumarið því að það er hægt að segja það sama um fólk: ferða-fólk er fífl. En ég er búinn að selja þessar tíkur allar fyrir skít og kanil og kom svona nokkurnveginn út á núlli.
Og svo ákváðu foreldrar mínir loksins að gifta og gerðu það þann 24 júlí eftir að þau  byrjuðu saman þarna 1978 eða 9. Frestunaráratta í þessu fólki alltafhreint.
Ég fór norður tvisvar á árinu.  Ég hafði ekki komið í gömlu sveitina síðan að haustlagi 2010. Af vissum ástæðum var það prinsipp að fara þangað aldrei framar, en með því að vinna nú svolítið með reiðina og biturleikann út í fortíðina og æskuna , fór ég þangað til að finna meiri sátt. Aðalerindið var reyndar af illri nauðsin en fór til að fylgja vini minum á Akureyri  til grafar sem lést ekki nema 32ja ára gamall. Sigurður Axel ég sakna þín og hugsa mikið til þín.
Tók mér svo frí í sumar í tæpa viku með kærustunni og fórum við hringinn á benzanum stöldruðum við í Breiðdalsvík nokkra daga, alveg frábært það. Fórum svo áfram með austurlandinu á norðurlandið og chilluðum styttra en við vildum en fullkomin ferð hringin og skemmtileg ævintýri sem áttu sér stað á þessu ferðalagi.
Dauðsföll voru nokkur á árinu en þar eins og fyrr segir voru menn að fara full snemma yfir móðuna miklu. Þá fóru tveir gamlir skipsfélagar og aðeins of fljótt líka hvorugur orðnir neitt háaldraðir en það er víst yfirmaður okkar á himnum sem ræður þessu öllu og spyr hvorki kóng né prest hvenær menn eru teknir yfir í astralheima. Nú en svo fór einn og einn út af elli og er það nú bara eðlilegt.
Svo kom haustið ég barðist raunar enn við kvíðann en  með  því að liggja á bæn til míns æðri máttar, ekki bara einu sinni á dag heldur oft á dag er þetta nú að hafast. Það er góð tilfinning þegar maður byrjar að treysta guði og finna að það sé allt í lagi og að það verði allt í lagi hvernig svosem sem það fer. Ég skráði mig svo á leiklistarnámskeið og dúddaðist í því eitthvað og lék svo í skaupinu og tók líka þátt í einhverju spaugstofugiggi sem og reyndar fleiri hlutum fyrr á árinu.
Ég er búinn að kynnast böns af allskonar fólki svona á þessum seinnihelmingi ársins svo að mér virðist sem þetta ár hafi tekið góðan endi. Vona bara að þetta haldi áfram á þessu striki. Ég þakka líka þeim sem hjálpuðu mér eða nenntu að tala við mig þegar mér leið hvað verst. Þið vitið hver þið eruð. En þá segi ég gleðilegt ár á ykkur öll og megi allt þetta blabla á komandi ári verða ykkur enn meira blabla á nýju ári.
Sjónvarpsþættir ársins – Fargo
Benzínstöð ársins – Shellstöðin við Bústaðarveg
Leigubílastöð ársins – CityTaxi
Tuð ársins – Ég að tuða yfir því í blöðunum að verið sé að nota titil af minni bók „Afturgangan“ á þýddan krimma eftir Jo Nesbö.
Tónleikar ársins – Bob Margolin (Blueshátíð)
Falleinkun ársins – Fasteignasala Reykjavíkur
Fæðingarhálfviti ársins – Fæðingarhálfvitinn sem keypti af mér húsið.
Leigubíll ársins -  Merzedes Benz E220 station grár NV201
Rifrildi og snapp ársins – Jæja það þarf ekkert að nefna það. Menn fara bara að vera með leiðindi.
Bless