blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++: apríl 2014

sunnudagur, apríl 20, 2014

Og þá eru komnir páskar

Ég græjaði páskaegg í krakkana og svo fengu þeir líka egg frá ömmu sinni og afa. Ég keypti mitt persónulega í bónus, svona eitt risastórt. Ég byrjaði að troða þessu í mig en gafst fljótlega upp. Maður þolir þetta ekkert lengur. Svo fær maður heldur enga útrás fyrir ofvirknina af öllum sykrinum. Ekki nema þá aukinn hjartslátt og titring fram í fingur. Svo ef maður drekkur kaffi með því, þá drullar maður alveg óskaplega. En krakkarnir, þeir verða eins og brjálaðir skopparaboltar af þessu út um allt hús. Ég hugsa að ég spari mig fyrir svínasteikina og reyni að hafa belginn sæmilega tóman fyrir hana í kvöld. Mér verður bara illt af öllu þessu súkkulaði. Maður fann aldrei fyrir því þegar maður var krakki og reyndi meira að segja að næla sér í bita hjá systkynunum þegar maður var búinn með sitt. Þvílíkt og annað eins át á manni alltafhreint. Einu sinni þegar ég var krakki var ég í fermingu hjá frænda mínum á næsta bæ. Þar var í boði að fá sér pikknikk með steikunum en ég át bara pikknikk og kokteilsósu. Síðan át ég og át þar til að mér varð flökurt. Ég labbaði því heim í hasti og ældi öllu í klósettið en svo hljóp ég bara í veisluna aftur eins og ekkert hafði í skorist og hélt áfram að éta pikknikk í kokteilsósu og fólk bara gapti yfir átinu. Engin furða að maður klóri sér svolítið í hnakkanum þegar maður lítur um farinn veg. En já, gleðilega páska.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ég var svo að grúska í gömlum þjóðsögubókum og fann þessa: Kafloðinn maður með klær á tám og fingrum fannst rekinn á Meðallandsfjöru. Hann var jarðsettur að Skarðskirkju hinni fornu en þá brá svo við að sálmar grallarans snerust í guðlast og formælingar og blessunarorð prestsins í blótsyrði. Síðast sást Loðni maðurinn lemja kirkjuna utan með fjölum úr kistu sinni. Mjög villugjarnt þótti jafnan síðan á þessum slóðum.

mánudagur, apríl 07, 2014

Ný jákvæðni

Í kjölfar nýrrar jákvæðni hef ég ákveðið að halda áfram að blogga. Í nokkur skipti var ég búinn að skrifa formlega, síðustu bloggfærsluna með tilheyrandi þunglyndislýsingum og tilvistarkreppuvæli en alltaf hætt við að ýta á "POST" og farið að gera eitthvað annað. En ég hef farið á jákvæðnisflipp reglulega og byrjað að blogga á nýjan leik og bögglast með mp3 í leiðinni en ætíð sogast niður aftur í neikvæðnina og bloggið orðið eyðiblogg að nýju. Nú er ég kominn í jákvæðnina aftur en með hjálp góðs fagaðila og markvissri vinnu get ég nú leyft mér þann munað að sælan muni endast.
Takk KBG
-----------------------------------------------------------
Svo djöflast maður í leiklistinni. Lítið í sviðslist en maður er að bregða fyrir í kvikmyndum og þáttum hér og þar eins og í skaupi og spaugstofu og Ástríði og helling af öðru, var reyndar í nokkuð stóru hlutverki í síðustu seríu af Sönn Íslensk Sakamál, þá sem rannsóknarlögga. Hef þó haft löngun til að ganga til liðs við eitthvert leikfélagið og leika á sviði en það verður að bíða betri tíma. En maður fær þó ögn þef af sviðsleik þegar maður hefur lokið við leiklistarnámskeið sem eru nokkur að baki þar sem slíkt endar yfirhöfuð með einhverju exíbitíóni í lok sérhvers námskeiðs.
-----------------------------------------------------------



-----------------------------------------------------------
Ég fékk á dögunum fullan kassa af vínylplötum sem ég hef verið að fletta uppúr og þeyta undir nálinni þessa dagana. Voða gaman alltsaman en meira um það síðar en hér höfum við sýnishorn af smá gúmmilaði sem leyndist í kassanum.