blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

laugardagur, maí 10, 2014

Óhreinindi í loftinu

Óþolandi að vakna svona en gott að vekjaraklukkan bjargaði mér í gærmorgun frá ferlega vondum draum sem ég man illa og slitrótt eftir og leið eins og þúsund árar væru að reyna að elta mig úr svefninum,yfir í vökuna. Þetta hefur einungis skilið eftir sig kvíðahnút og óþægindi sem ég reyndi að slíta af mér frameftir morgninum. Fæ sjaldan svona draumfarir nema þegar eitthvað óhreint er á ferli. Þá er um að gera að hafa snör handtök og reka slíkt út á gaddinn þangað sem það á heima.
Einu sinni gisti ég í húsi í suðurhluta höfuðborgarsvæðisins nokkra daga. Draumarnir eða draugarnir sem bjuggu í þeim andskotuðust og djöfluðust í mér fram í vökuna, eitt sinn fékk ég á tilfinninguna að verið væri að ráðast á mig þar sem ég lá sofandi en það hvarf jafn skjótt og ég vaknaði. Reyndar fannst mér í rökkvuðu herberginu að einhver stykki út í gegn um lokaðar dyrnar. Þarna fór eitthvað af stað þegar verið var að grafa utan í lóðinni en upp komu skrítnir hlutir eins og bein og fleira gamalt rusl sem engin kunni nein deili á nema hvað að fljótlega fór að verað ófriður í húsinu. Raddir heyrðust úr loftinu og hlutir færðust til og hurðir opnuðust og lokuðust á víxl. Það var ekki fyrr en franskur miðill sem staddur var á landinu á ferðalagi var fenginn til að koma í húsið til að stilla til friðar. Dvaldi hann þar í dag eða tvo og miðlaði málum en lítið var vart við reimleika í húsinu eftir að þessi miðill yfirgaf húsið. Sennilega hefur hann náð að sjatla hinar órólegu eilífðarverur og aðstoðað þá við að finna réttu leiðina, hvert sem hún hefur nú legið. En gatan sem húsið er við er á stað þar sem nokkrir bæir hafa verið samliggjandi og jafnvel kirkja og því ekki ósennilegt að hróflað hafi verið við svefnholum látinna.
En ég vona nú að þetta sé nú í lagi hér heima hjá mér og þetta hafi nú ekki verið neitt nema óþægilegur draumur og búið. Oft er þetta nú eitthvað sem kemur og fer en það er pirrandi þegar eitthvað óhreint er á ferðinni. Það vil ég að fari út og sína leið, þangað þar sem það á heima. Þá sjaldan sem ég verð var við eitthvað hinu megin frá, þá er það venjulega eitthvað svo sterkt og kyrfilegt. Ég er svo jarðbundinn að ég kippi mér ekki upp við neinn tittlingaskít.
-----------------------------------------------------------

Engin ummæli: