blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ég hata net

Mér er það minnistætt þegar ég var á netum. Mitt fyrsta og eina skipti sem ég hef verið á netaveiðum. Ömurleg veiðafæri. Svo eru þau stórhættuleg helvítis netin. Margir hafa þvælst í þetta drasl og farið í sjóinn með því. Varð vitni að því þegar einn kallpungurinn þvældist með fótinn í færið og rétt náði að losa sig áður en færið fór út. Aðeins stígvelið fór niður með netunum. Þarna stóð maðurinn á annari löppinni eins og fífl. Búinn að tapa stígvelinu sínu.
Einu sinni munaði litlu að illa færi hjá mér. Ég og kokkurinn stóðum og vorum að leggja auk annars drengfávita sem átti að kasta færinu um leið og síðasta netið í trossunni fór út. Hann sleppti því og fór frekar að öskra eitthvað eins og helvítis arlam í vekjaraklukku og drógst því færið út í sjó og utan í mig og kokkinn. Náði ég að stökkva frá þessum ósköpum og þvæla hönkinni í hafið áður en illa færi. Munaði minnstu að ég dræpi arlam-gaurinn, fyrir heimskuna. Settumst við kokkurinn skjálfandi niður í borðsal og fengum okkur kaffi til hressingar. Skipstjórinn kom niður og spurði okkur rólega hvort að við værum eitthvað að pæla í sjálfsmorði. Ég svaraði honum með því að snúa eitthvað út úr. Skipstjórinn hristi bara hausinn og fór upp í brú. Já þetta er meira ruslið þessi net. Ég ætla aldrei aftur á net. Hata þau. Þá er nú línan eitthvað annað. Miklu þægilegra að vinna með hana heldur en netin. Veiðist miklu meira á línu, heldur en net. Allavegar eru flest línuskip og bátar að rótfiska þessa dagana, eins og menn hafa séð í fréttum undanfarið.

Engin ummæli: