blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

föstudagur, júlí 06, 2012

Jarðarband

Og þá var nú stormað á Stokkseyri í vikunni með viðliti í draugasetrinu. Voðalega flott dæmi sem maður labbar þarna um og allt gert voðalega draugalegt og skemmtilegt. Og svo er maður látinn hlusta á iPod og gædaður þarna í gegn með draugasögum. Svo hafa þeir tekið upp á því að vera þarna með einhver krakkaskít klæddan upp eins og móra. Sá stekkur í veg fyrir mann svo að manni bregði ógeðslega. Já ég sagði það, bregða ógeðslega. Ég er nú reyndar svo jarðbundin að ég finn aldrei neitt eða sé né heyri nokkurn skapaðan hlut að handan, að undanskildum óróanum í svefnherberginu mínu sem fór að sveiflast á fullu þarna hangandi uppí loftinu án þess að nokkur kæmi þar við. Allir gluggar voru lokaðir svo að enginn möguleiki á vindsúg var að ræða í þessu tilfelli. Já og skuggi sem ég sá eitt sinn bregða fyrir, þar sem ég gat ekki komið fyrir mig neinni almennilegri skýringu. Já maður er svo jarðbundinn eitthvað, enda alinn upp í kring um afar jarðbundið fólk. Aldrei var talað um álfa eða huldufólk eða reimleika á mínum bæ. Foreldrarnir spýttu í allar áttir ef reynt var að fá þau til að spjalla um slíkt. Ég reyndi einu sinni að kreista eitthvað uppúr afa mínum um dulræna hluti. En það var eitthvað voðalega lítið sem hann nennti að ræða um svoleiðis. Eldri bróðir minn giftist inní fjölskyldu þar sem fólkið var mikið að velta fyrir sér lífinu eftir dauðann, fóru á miðilsfundi og svoleiðis en hann hló nú bara framan í fólkið þegar reynt var að telja honum trú um slíkt. Mér líkar svo sem ágætlega að vera ekki í neinni snertingu við andaheimana og fínt að vera ómóttækilegur gagnvart því. Hleypi því heldur ekki of nálægt mér. Ég vil að framliðnir haldi sér á sínum stað og við á okkar. En þetta fylgir fólki víst mis mikið. Kona nokkur sem ég þekki hefur upplifað ýmislegt. Hún hefur séð hluti á borð við bækur og hin og þessi búsáhöld fara af stað heima hjá sér. Einu sinni gerðist það að kaffikanna og bolli sem stóðu á eldhúsborðinu hennar, lyftust upp og svo hallaði kaffikannan fram og hellti kaffi í bollann. Vinur minn var eitt sinn heima hjá sér og var að lesa inn í stofu þegar útvarpið fer að lækka niður í sér af sjálfsdáðum. Nú hann stendur upp og hækkar aftur í tækinu en þegar hann er svo sestur aftur niður en þá lækkar í tækinu. Hann stendur upp og hækkar á nýjan leik og sest niður en þá endurtekur sagan sig. Þá verður honum nú bara að orði, „viltu ekki bara slökkva á þessu”. Það var eins og við manninn mælt. Það slokknaði bara á tækinu. Jæja þá held ég að best sé að fá sér göngutúr með hundinn og vita hvernig jarðaberja beðin mín hafa blómstrað í dag.