Bambarabamm
Svo dreymdi mig í nótt að ég væri í slagtogi með vafasömu og misgáfulegu fólki í undirheimum Reykjavíkur og til stóð eitthvað glæpsamlegt að gera til að græða á. Ég vildi nú heldur draga mig út úr þessu en lét til leiðast að leggja fé í þetta brask sem ég vissi ekki alveg hvað var og hafði slæma tilfinningu fyrir því sem var í uppsiglingu og dró mig út úr þessu. Síðan var ég á labbi í þröngu porti þegar ég mæti rannsóknarlögreglumanni(leit út eins og Kurtwood Smith, sennilega leikinn af honum bara) sem veittist að mér og keyrði mig út í vegg og sagðist fylgjast með öllu. Ég sagði honum að ég væri ekkert að gera af mér og hann gæti því djöflast í þessu liði sem ég hafði verið að umgangast í stað þess að bögga mig.
Síðan fór mig að dreyma ýmislegt óljóst bull og var þessi Kurtwood Smith-lögga allstaðar að bregða fyrir hvar sem ég var staddur í draumum mínum. Sat meira að segja á næsta borði við mig þar sem ég var staddur í giftingaveislu og var líka fyrir aftan mig í röð þar sem ég var í matvörubúð að bíða eftir afgreiðslu og svo mætti honum á bíl þar sem ég var að keyra um götur Breiðholts.
Í lokin var ég svo kominn til að taka við þessum ólöglega gróða sem ég hafði lagt fé í til ávöxtunar(skil samt ekki, ég hafði dregið mig út úr þessu). Staddur á bílaplani við einhvert veitingahús í Keflavík. Sá ég bíl löggukarlsins álengdar og vissi því að helvítis kallinn var að fylgjast með mér og hinum. „Nei," sagði ég þegar otað var að mér tösku með peningum, „ekki þessa helvítis blóðpeninga." Svo fór ég inn á veitingastaðinn, gekk inn á klósettið og meig í klósettskálina en í því þegar ég klára er að renna upp buxnaklaufinni kemur Kurtwood Smith-löggan og ræðst á mig og erum við að slást góða stund þegar mér tekst að rota hann með því að berja hausnum á honum í vaskinn, fer út á bílaplanið og tek við peningunum fullur réttlætiskenndar þar sem ég hef fengið nóg af því að vera eltur af þessari löggu sem var að ásækja mig.
Sennilega mun ég aldrei líta Kurtwood Smith sömu augum og ég hef gert þegar ég horfi á That’s 70s Show.