Í sveit og í kaupstað
Draumarnir í nótt voru stuttir en fjölbreytilegir. Fyrst var ég heima í sveit að bardúsa í fjárhúsunum, gefa kindunum og laga til með pabba. Í næsta draumi vesenaðist ég við að skipta um traktorsdekk á gamla Fordson, svo fór ég eitthvað að yfirfara keðjurnar í skítadreyfaranum. En svo burt frá sveitinni og yfir í kaupstaðinn. Þá spásseraði ég á götum Ísafjarðar. Fór inn í hús og enginn var heima en ég mátti samt til með að reka nefið inn í ískáp hússins, egg, jógúrt, mjólk, lýsi, álegg, tómatsósa, sinnep, laukur og koppafeitissprauta. Hún var kámug. "Hmm.... best að fara með þetta yfir í bílskúrinn". Í bílskúrnum var bíll í uppgerð, Dodge Coronet '67. Ég lagði koppafeitissprautuna á borð sem var við hliðina á bílnum og ætlaði að labba út úr bílskúrnum sem stóð opinn en í vegi mér varð maðurinn sem átti heima í húsinu. Hann stóð spariklæddur með vatnsgreitt hárið og miðaði á mig 38kalíbera skammbyssu. "Ó, ég ætlaði bara að setja koppafeitissprautuna á sinn stað". Maðurinn lét byssuna síga en sagði ekkert. Ég hljóp út og kom mér í nærlyggjandi sjoppu. Næsti draumur var öllu rólegri og samanstóð af flugusveiðitöng og árhyl og góðu veðri. Meira var nú ekki um drauma þá nóttina.
------------------------------
Maggie Bell - No Mean City (Taggartlagið)
Faron Young - Hello Walls
Engin ummæli:
Skrifa ummæli