blank'/> blank'/> +++Aldrei að hafa gaman af lífinu+++

sunnudagur, janúar 30, 2011

Slakur prinsippmaður

Einu sinni ætlaði ég mér að flytja í Borgarnes. Það var í lok maí árið 2000 sem ég tók þá ákvörðun að ég yrði fyrir sunnan út sumarið við að keyra út pizzur sem ég vann þá við og færi síðan í Borgarnes á sláturtíð þegar það tæki að hausta. Ég þekkti engan þar og fannst því nokkuð spennandi að fara úr borginni og eitthvert þar sem ég hafði sjaldan staldrað við og þekkti engan. Reyndar vissi ég að Sveinn M. Eiðsson ætti heima í Borgarnesi og hafði heyrt margar sögur af honum og að þetta væri skemmtilegur maður. Ég ásetti mér því að kynnast Sveini ef ég settist þarna að eitthvað varanlega. Þessi Borgarnesjar flutningur átti þó eiginlega að vera millilending á leiðinni norður, þangað sem ég ætlaði að setjast endanlega að. Ég hef þó ekki enn flutt í Borgarnes né hef heldur ekki sest að fyrir norðan. Reyndar hefði ég aldrei kynnst Sveini M. Eiðssyni þó að ég hefði farið á sláturtíð þetta haust því að hann dó þarna um sumarið. En já ég er ennþá í Reykjavík. Ég ætlaði aldrei að búa í Reykjavík, Það var prinsipp. Reyndar hef ég einstakt lag á því að brjóta mín prinsipp. Ég ætlaði aldrei að taka bílalán, það var prinsipp. Ég ætlaði aldrei að fá mér visakort, það var prinsipp. Ég ætlaði aldrei að drulla uppá bak með visakort, það var prinsipp. Ég ætlaði aldrei að vera með stöð2, það var líka prinsipp. Allt saman prinsipp sem ég hef þverbrotið og brennt og mörg önnur líka. Ég á þá ekki eftir annað en að giftast, kaupa mér áskrift að DV, fá mér vinnu á línuskipi eða vinna fyrir Vísi HF í Grindavík að þá eru öll prinsipp farin til helvítis. Að vísu verða alltaf til ný og ný prinsipp þegar ég brýt eitt að þá verður annað til. Ég er sumsé lélegur prinsippmaður eða bara ekki nógu andskoti þrjóskur til þess að geta sett mér eitthvað slíkt.

Engin ummæli: